Friday, December 4, 2009

Yojimbo

Leikstjórn: Akira Kurosawa
Leikarar: Toshiro Mifune, Tatsuya Nakadai, Yoko Tsukasa, Isuzu Yamada o.fl.

Þetta er eins konar japanskur vestri með "this town isn't big enough for the both of us" þema.
Sanjuro Kuwabatake (eða Mulberry Feild thirty-year-old (ég ætla ekki að dæma)) er samuraii sem hefur engan meistara og kemur að bæ þar sem tvö glæpagengi berjast um völd. Sanjuro fær bæði gengin til að ráða sig sem lífvörð sem, svo heppilega vill til, er þýðingin á nafni myndarinnar. Hann fær svo gengin til að berjast á móti hvoru öðru ooog allt verður brjálað.

Það eina sem mér fannst í rauninni gott við myndina var hvernig tónlistin stjórnaði tilfinningum. Ekki það að mér þótti tónlistin góð - því, let's face it, ég er ekkert mikið fyrir japanska tónlist. En hún náði allavegana markmiðunum sem ég býst við að hafi verið að gefa til kynna að dramatískir hlutir væru að gerast og magna þá þegar þeir gerðust. Eins og þegar byssur og sverð eru dregin upp.

Ég verð að viðurkenna að ég dottaði nokkrum sinnum og er því ekki alveg að marka álit mitt á þessari mynd, en 50 ára gamall japanskur vestri er ekki alveg að gera sig fyrir mig, og ég myndi ekki borga 350 kall til að leigja hana aftur. Frekar kaupi ég mér ís.

Ásamt því að velta fyrir mér af hverju einhver þeirra, eða fleiri, notar ekki ermina sína frekar en hálsmálið fyrir hendurnar, velti ég fyrir mér hvað "A juggernut of a film" þýðir..

Hér höfum við trailerinn

Wednesday, December 2, 2009

Some Like It Hot



Some like it hot er gamanmynd í rómantískari kantinum, frá 1959.

Billy Wilder (1906-2002) sér um leikstjórn og handritaskrif og stendur sig prýðilega - eins og að vana. Þetta er alls ekki fyrsta myndin sem hann kemur að, en hann hafði samið handrit að minnst 50 myndum og leikstýrt 16 öðrum, áður en hann tók að sér Some Like It Hot. Some like it hot er tiltölulega týpisk mynd fyrir Wilder en flestar myndir hans eru einmitt gamanmyndir með huldum skilaboðum og smá rómantík bætt út í. Hún er líka týpisk fyrir hann á þann hátt að það eru fáar dramatískar tökur, varla neitt zoom, ekkert dutch tilt og aldrei reynt að koma tilfinningum fyrir hjá áhörfendum, enda sagði Billy Wilder að hann vildi ekki þannig tökur. Hann vildi að sagan segði sig sjálf. Þetta hugarfar virkar vel hjá honum en það sleppur kannski því allar myndirnar hans eru léttar. Ein uppáhalds setningin mín frá Wilder er samt, "Take a few shots out of focus, I want to win a foreign film award." Hann var alveg gífurlega hæfileikaríkur og eyddi allri sinni ævi í að skrifa, framleiða og leikstýra myndum og er einn af uppáhalds leikstjórunum mínum. Kannski bara uppáhalds því hann er svo miklu krúttlegri en allir hinir.


Fögru stöllurnar Josephine og Daphne

Some Like It Hot gerist í Chicago, þar sem vinirnir Joe og Jerry verða vitni að St. Valentines fjöldamorðinu og reyna þeir að finna leið til að flýja borgina undan mafíunni. Sagan tekur óvæntan sveig þegar eina leiðin til að flýja er með kvennhljómsveit sem er á leið til Miami. Þeir klæða sig í kvennaföt og ganga í lið með hljómsveitinni. Joe verður Josefine og Jerry verður að hinni álíka ófríðu Daphne. Þeir komast þó ekki hjá öllum vandræðum þar sem Jerry verður ástfanginn af Sugar Kane (Marilyn Monroe) og Joe þarf að þola hinn óþreytandi biðil Osgood.

Mér fannst Some Like It Hot einfaldlega góð, ein af betri myndum Wilder og virkilega fyndin miðað við aldur. Leikararnir eru náttúrulega stórkostlegir fyrir utan nokkra kvilla í leik hjá Marilyn Monroe, en hún og leikstjórinn voru langt frá því að vera mestu mátar. Ég held nú að Svanhvít hafi komið að þessu í hennar bloggi, en hún var hræðilega léleg í að muna línurnar sínar. Þegar Monroe átti að opna skúffu og segja "Where's the bourbon?" gat hún ómögulega munað línuna, sama hversu oft þau tóku upp. Wilder límdi textann í skúffuna, en þá opnaði hún bara vitlausa skúffu. Á endanum var hann búinn að koma textanum fyrir í öllum skúffunum. Samt þegar þú horfir á þetta er leikurinn alveg jafn trúlegur og ef þetta væri að gerast í alvöru. Jack Lemmon var uppáhalds leikarinn hans Wilder til að vinna með enda einn besti leikari Bandaríkjamanna fyrr og síðar. Það er skemmtilegt hvað karakterinn hans er "oblivious" um það að hann sé í rauninni karlmaður og dettur svolítið inn í gírinn þegar hann trúlofast Osgood (Joe. E. Brown). Ein góð setning er : Curtis: "You're not a girl! You're a guy! Why would a guy want to marry a guy?" Lemmon: "Security!"
Önnur er þegar Lemmon er búinn að tilkynna Curtis að þeir Osgood séu trúlofaðir : Curtis: "What are you going to do on your honeymoon?" Lemmon: "He wants to go to the Riviera, but I kinda lean toward Niagara Falls."
Það besta við myndina er samt lokaatriðið, þegar Lemmon segir biðlinum sínum ótal galla sem hann síðan sýnir að honum sé slétt sama um. Svo þegar hann tjáir sig um að hann sé karlmaður segir Osgood: "Well, nobody's perfect!" Frábær leið til að enda þessa mynd.



Myndin er skemmtileg, fyndin og hógvær í alla staði sem hún þurfti að vera. Ekki var of mikið af tónlist né dramatík í skotum og handriti, sem eins og áður hefur komið fram, er einkennandi fyrir myndir Wilder.
Þetta er fyrsta mynd með klæðskiptingum sem hefur verið gerð og þegar Wilder var spurður út í af hverju hann gerði mynd um karla sem klæddust eins og konur sagði hann: "Women starting wearing the pants in Hollywood around that time, i just wanted to return the favor."
Some Like It Hot er ein besta "eldri" gamanmyndin sem ég hef séð og ég myndi mæla með þessari mynd við hvern sem er.

Paranormal Activity

Ég fór á Paranormal Activity (2007) fyrir nokkrum vikum, í kolniðamyrkri kl 22:30. Ekki alveg besta hugmynd sem ég hef átt. - Vona að þú sért búinn að sjá hana svo ég eyðilegg ekki fyrir þér!

Paranormal Activity er hryllingsmynd á heimildamyndaformi, á sama plani og Blair Witch Project. Kærustuparið Katie og Micha eru flutt saman inn í 2. hæða smáhús í San Diego. Þar verður Katie vör við yfirnáttúrulega hluti eins og andardrátt og tilfinningu um viðveru náttúrulegs fyrirbæris. Micha ákveður að kaupa myndavél til að taka upp hvað gerist á nóttuni. Fátt gerist í byrjun og þau tala við miðil sem vísar þau á sérfræðing um illa anda. Fleira fer svo að gerast á þessum upptökum á nóttuni eins og skuggar að birtast, hurðir að hreyfast o.fl., sérstaklega eftir að Micha dregur fram andaglas-borð. Eftir nokkrar nætur fer Katie að standa upp í svefni og horfa á kærastann klukkutímum saman, hún fer líka út að róla sér án þess að muna eftir því daginn eftir. Spennan byggist hægt og rólega þangað til í hrottalegu síðustu mínútunum. Lokaatriðið fékk mig til að öskra, ásamt hálfum bíósalnum, en það hefur ekki gerst lengi.


Þetta er frumraun leikstjórans, handritshöfundarins, klipparans og sviðstjórans Oren Peli og verð ég að segja að honum tekst frábærlega að gera þennan yfirnáttúrulega spennitrylli raunverulegan. Það komu aðeins 5 manns við gerð Paranormal Activity (auk 5 annara aukaleikara sem ekki sáust í myndinni sem var sýnd í bíó). Það eru Oren Peli, Katie Featherston - Katie, Micha Sloat - Micha, Mark Fredrichs - miðill og Amber Armstrong sem leikur vinkonu parsins, Amber. Það gerði myndina hvað raunverulegasta fyrir mér með því að skýra karektarana ekki upp á nýtt. Að fara á wikipedia eftir myndina og sjá að þetta væru raunveruleg nöfn þeirra ílengdi hræðslutilfinninguna.
Oren Peli er búinn að vera dauðhræddur við drauga allt sitt líf, hann var meira að segja hræddur við Ghostbusters, en hann vildi binda þessa hræðslu í eitthvað gott og fá afköst út á hana. Meginmarkmið hans var að gera myndina trúlega og byggja upp spennu og hræðslu smám saman, frekar en að vera með ýktar hræðslusenur. Ég verð að viðurkenna að honum tókst þetta fullkomlega. Engin tónlist er í henni og nætursenurnar teknar upp með venjulegri næturstillingu á myndavélinni, allt hjálpar þetta til við að halda "illusioninu". (Afsakaðu enskusletturnar). Myndin nær að halda hræðslu fólks því allt þetta yfirnáttúrulega gerist í myrkri og í skjóli næturs þegar fólk er sofandi. Þó að sumir þori ekki að viðurkenna það þá eru allir pínku lítið hræddir við myrkrið.

Myndin er öll tekin upp á "handheld" myndavél sem ýkir raunverurleikann enn frekar. Nokkrum sinnum er Micha að taka upp inni á baði þar sem eru 3 speglar og sést að það er ekki möguleiki á að nokkur annar sé að taka þetta upp nema hann. Það er ein af ástæðunum fyrir því að ég þurfti að sannfæra sjálfa mig stöðugt um að þetta væri ekki sannsögulegt. Önnur ástæða, ótrúlegt en satt, var leikurinn. Mér fannst þetta mjög vel leikin mynd og það var greinilegt að leikararnir (allir tveir!) voru að lifa sig algjörlega inn í persónurnar sínar.

Ég vissi ekkert um myndina þegar ég fór á hana og held að það hafi gert hana mun skemmtilegri. "The element of surprise" er alveg stór þáttur, sérstaklega í hryllingsmyndum.
Eins og ég sagði þá fór ég strax heim á wikipedia eftir myndina og komst þá að mörgu sem kom mér á óvart. Oren Peli hafði til dæmis bara 15.000$ fjármagn og myndavélina á þrífæti til að gera myndina, en það að hann kom að allri vinnslu sjálfur og þurfti auðvitað ekki tökulið hefur hjálpað helling. Myndin var öll tekin upp í húsinu hans í San Diego, sem hann hafði eytt ári í að breyta og byggja og kaupa ný húsgögn í. Hann byggði stiga, setti inn teppi og keypti sér stærsta sjónvarpið sem til var.
Annað sem gerði myndina trúlega var að þessir leikarar voru algjörlega óþekktir. Katie hafði leikið í mynd sem heitir Mutation frá árinu 2006. Mynd sem ég ætla aldrei nokkurn tíman að sjá.

"Terror has just mutated"
Micha hafði aldrei leikið í sjónvarpi né bíómyndum áður. Persónur þeirra voru líka eðlilegar og áttu venjulegar samræður, en Oren var ekki með neitt handrit, heldur fengu leikararnir bara útlínur að því hvað þau áttu að segja.

Paranormal Activity var fyrst gefin út árið 2007 með öðrum endi, en alls eru til þrír mismunandi endar af myndinni. Sjálf held ég að endirinn sem var sýndur í bíó hljómi bestur, en ég hef ekki séð hina tvo. Myndin varð fyrir nokkrum töfum og sem sjálfstæð mynd var hún ekki auglýst eins og Hollywood myndir og smá vesen að koma henni á legg en hún var sýnd á nokkrum kvikmyndahátíðum og háskólagörðum á seinustu 2 árum. Hún var síðan heimsfrumsýnd 25. september 2009. Hún er núna gróðamesta sjálfstæða mynd í sögunni og var búin að græða 107 milljónir dollara 25. nóvember.

Að mínu mati er þetta betri hryllingsmynd en flestar þær með endalausu bregðiatriðum og milljónum í fjármagn en ég er ánægð að hugsjónir og draumar þessa snillings hafi getað komist til skila, sama hvað það kostaði.
Hún er með 7.1 í einkunn á IMDb (ég veit að það er ekki að marka) en ég myndi gefa henni 4-4.5 stjörnur af 5. Ég dreg smá af henni því mér finnst aðalleikkonan pirrandi.


Ég er enn þá hrædd við trailerinn á myndinni - þrátt fyrir að hafa séð hana og lesið allt um gerð hennar.

Jack and Sarah

Jack and Sarah er ljúf, sæt og fyndin rómantísk gamanmynd sem skartar Richard E. Grant - en hann minnir alltaf mig svolítið á ófríðari gerð af Hugh Grant.


Myndin fjallar um Jack sem dettur í stiganum við að flýta sér þegar konan hans fær hríðir. Þegar hann vaknar úr dái kemst hann að því að þó að hann sé orðinn faðir hraustrar litlar stelpu, hafi konan hans dáið við fæðinguna. Í dofnum "stupor" yfirgefur hann sjúkrahúsið og fer á nokkura mánaða fyllerí með hverfisrónanum. Eftir alvarlegar björgunaraðgerðir frá foreldrum og tengdaforeldrum tekur hann þó við barninu og ræður unga, fallega þjónustustúlku sem fóstru. Svo væri þetta nú ekki almennileg mynd ef hann yrði ekki ástfanginn af henni.

Það sem stendur upp úr í þessari mynd er hversu fallegar litlu stelpurnar sem fengin eru til að leika barnið, Sarah. Maður heyrði alveg eggjastokkana klingja - neii grín. En þær eru alveg ótrúlega sætar þær þrjár sem leika hana. Ian McKellen leikur rónann og gerir það auðvitað frábærlega og það er skemmtileg persóna sem kryddar annars fyrirsjáanlegu söguna.

Þetta er bara týpisk "bresk hollywood" mynd, og örugglega vel fjármögnuð þannig að allt varðandi upptöku og vinnslu er "tip top". Leikurinn er líka góður, eins og ég sagði koma margir frábærir leikarar við gerð þessarar myndar eins og Richard E. Grant, Judy Dench og Ian McKellen. Jack and Sarah er annars bara mjög sæt mynd. Hún eldist vel og þó svo að hún sé orðin 14 ára gömul eru brandararnir enn þá frekar fyndnir. Sérstaklega því persónan Jack er þannig týpa að hann ætti að vera skipulagður en er gjörsamlega ósjálfbjarga og quirky (dæmi í myndbrotinu að neðan). Hins vegar eins og með flestar rómantískar gamanmyndir er hún fyrirsjáanleg.

Það er ekkert margt annað hægt að segja um hana nema mæli alveg með henni sem fín dægrarstytting!


Monday, November 23, 2009

Fallen

Tagline: ,,Don't trust a soul"
Leikstjórinn Gregory Hoblit stendur sig ágætlega í þessum spennuhrylli frá 1998, en hann hefur aðallega leikstýrt þáttum og sjónvarpsmyndum. Denzel Washington fer með aðalhlutverk, en önnur hlutverk skarta John Goodman (sem ég mun alltaf þekkja sem pabbann í Coyote Ugly) og Donald Sutherland.
Fallen fjallar um heiðarlega lögreglumanninn John Hobbes (Denzel Washington) sem heldur að líf sitt verði einfaldara eftir líftöku fjöldamorðingjans Edgar Reese, en það varð alls ekki raunin. Séreinkenni Reese byrja að birtast í fjöldann öllum af fólki í kringum Hobbes, bæði vinum og ókunnugum, og þá fer hann að velta fyrir sér ótrúlegum og yfirnáttúrulegum útskýringum.
Persónulega get ég ekki bent á eina mynd með D. Washington sem mér líkar ekki við og eru The Bone Collector, Training Day og American Gangster myndir sem ég myndi mæla með við hvern sem er. Hann er mjög góður leikari, en þegar ég lít á heildina er það sjaldgæft að hann leiki nokkuð annað en lögreglumenn, spillta eða ekki, þannig að hann ætti að vera búinn að fullkomna þetta hlutverk!
Það er ekkert hægt að setja út á leikinn í þessari mynd, meira að segja börnin léku þó nokkuð vel. Handritið og söguþráðurinn voru líka vel út hugsuð og þrátt fyrir að vera "far fetched" hugmynd þá gekk hún ágætlega og skildi eftir hroll í manni sem er kostur við gerð hryllingsmyndar! Nokkrar setningar gáfu þó kjánahroll og var ein þeirra: ,,Everything's personal when you're a person". Í frekar mikilli topp mynd skildi ég ekki af hverju var verið að troða svona setningum inn. Upptökurnar voru stundum svolítið skrýnar og of stuttar á stöðum, en augljóslega verið að reyna að stytta myndina sem var alveg tveir tímar.
Myndin byrjar á endinum, og síðan aftur á byrjunarreit og endar svo aftur á því sem var endirinn, en var í byrjuninni. Capiche? Nei, þetta kemur vel út og hasarinn og twistið í endanum líka. Ég tók eftir nokkrum dutch tilt tökum í lokaatriðinu og ég sá þá fyrst hversu vel út hugsað þetta er, maður verður einhvern veginn spenntari og líður eins og eitthvað slæmt sé að fara að gerast. Ég tók líka eftir því hvernig hljóðin gerðu mann spenntan, eins og brak í gólfinu eða ískur í hurðum. Vondi kallinn í myndinni söng líka alltaf lag, sem gaf til kynna hvenær hann (og illir hlutir) myndi birtast.

Allt í allt var þetta fín mynd miðað við að vera 11 ára gömul. Hún var áhugaverð, ófyrirsjáanleg, vel gerð og vakti hroll.
http://i.realone.com/assets/cs/305/01128305.jpg
Denzel Washington og Embeth Davidtz á góðu augnabliki

Friday, November 20, 2009

Lock, Stock and Two Smoking Barrels - "A disgrace to criminals everywhere"

Ég hafði ekki heyrt mikið um hana fyrir en ég tel það líka vera gott. Oft eyðileggur það myndina þegar maður veit of mikið um hana eða er búinn að heyra frábær gagnrýni. Það byggir upp óraunhæfar væntingar og skemmir fyrir manni eigin skoðanir.
Lock, Stock and Two Smoking Barrels fjallar um fjóra breta með sterkan cockney hreim sem lenda í djúpum skít þegar þeir skulda skyndilega hálfa milljón punda. Til að losa sig úr klípunni og forðast það að missa puttana ákveða þeir að ræna hóp lögbrjóta sem eru í þann mund að ræna banka. Inn í málin flækjast síðan ótal handrukkarar og hass-ræktarar, ruglingslegur söguþráður, furðulegir persónuleikar og já, tveir rifflar.
Lock, Stock and Two Smoking Barrels er frá árinu 1999 og er það Guy Ritchie sem leikstýrir henni. Ég hafði séð Snatch en það kom á óvart hversu líkar þær tvær eru. Það eru líkar persónur og eins ruglingslegur söguþráður sem fer fram og til baka á milli persóna þannig að þú veist aldrei hvað er í gangi. Í þessari mynd til dæmis vissi ég aldrei hver væri með peninginn í förum sínum því hann skipti um eigendur jafn oft og skipt var um umhverfi. Jason Statham leikur svo í þeim báðum, en það er nákvæmlega ekkert slæmt við það.
Myndin var bara nokkuð góð. Hún er vel leikin og vel gerð í alla staði. Kímni skýst inn hér og þar og þá er aðallega verið að gera grín að mistökum og heimsku smáglæpamanna. Ég er með mjög einfaldann húmor en hann náði algjörlega til mín. Vegna hraða söguþráðarins og furðulegra og fyndnra karaktera helst maður límdur við skjáinn og ekki er verra að hlusta á breska hreiminn. Það sem mér fannst þó best við myndina var endirinn. Síðustu fimm mínúturnar voru þær mest spennandi í myndinni og mér fannst mjög vel gert af höfundum og leikstjóra að skilja mann eftir hangandi í lausu lofti og leyfa manni að ímynda sér endinn eins og hver óskar. Ég mæli hiklaust með henni og get með góðri samvisku sagt að hún fór strax hátt á listann minn.

http://k-kinofilm.ru/images/k-kinofilm/Lock-Stock-Two-Smoking-Barrels.jpg

Wednesday, November 18, 2009

Night of the Hunter

Night of the Hunter (1955) er undir leikstjórn Charles Laughton og er fyrsta, sem og eina myndin sem hann hefur leikstýrt. Ég hef ekki enn þá gert upp hug minn um hvort það sé gott eða slæmt. Hugmyndin að sögunni er ekki alslæm. Ekkja og tvö börn manns sem fer í fangelsi fyrir bankarán eru plötuð og notuð af presti sem leitar peningsins sem eiginmaðurinn hafði stolið. Þessi prestur, sem skilur þó ekki hin sönnu orð guðs, reynir að fá börnin sem eru þau einu sem vita af þýfinu, til að segja sér hvar það er falið, en lendir í erfiðleikum með það.
Eins og ég segi, þá er þetta alls ekki lélegur söguþráður og eltingaleikurinn lofaði góðu, séstaklega eftir fráfall móðurinnar og börnin standa eftir ein á móti fullorðnum manni. Á tímapunktum minnti hún mig á bækurnar Lemony Snickets: A Series of Unfortunate Events sem mér þótti fínar bækur.
Mér þykir því leiðinlegt að tilkynna að myndin stóð ekki undir væntingum. Með það fyllilega í huga að myndin er gerð árið 1955, þegar mamma mín var enn ófædd, er leikurinn hryllilegur. Kannski hefðu leiklistaskólar átt að stofnast nokkrum áratugum fyrr því það var frekar sárt að horfa á leiklistahæfileika þessa fólks. Ég veit ekki hvort það hafi verið afburðaleikur karlmannanna eða jafn lélegur leikur hins kynsins en hver einasta sena sem innihélt kvennmann fékk mig til að stara á skjáinn af undrunn. Þær voru ekki alveg fyrir minn smekk. Ofleikur, lélegar setningar og skrækar raddir einkenndu oftar en ekki senur þar sem myndavélinni var beint að kvennmönnum myndarinnar. Kannski voru til leiklistaskólar á þessum tíma, en aðeins karlmönnum hleypt inn, eða var þetta ímynd hins týpíska kvennmanns um miðbik 20. aldar, hvað veit ég?

Annað sem fór í mig var handritið, eða dialouge-ið, og hvernig það, svipbrigði og ávarpanir voru ýkt í mörgum tökum. Þegar mamman kemst að því að presturinn vilji ekki sofa hjá henni á brúðkaupsnóttunni (engin smá tilætlunarsemi í henni að búast við því!) greip hún fyrst um hjartað með andköf og fleygði sér svo á koddann með tilheyrandi hljóðum. Þegar pabbinn var handjárnaður í byrjun myndarinnar voru viðbrögð stráksins ekki alveg það sem maður myndi kalla "eðlileg", né þegar maður var skotinn í andlitið með haglabyssu og hljóp svo í burtu eins og hrædd nagdýr. Ég veit ekki alveg hvern ég á að ásaka varðandi þessar senur, hvort það sé handritið, leikurinn eða leikstjórnin. Kannski voru þessi ofleiknu andköf og fleira allt fyrirfram ákveðið, ég myndi alveg skilja það að bíómyndir þessara tíma ættu ekki að vera raunveruleg, heldur voru kvikmyndahúsin staður sem menn gátu flúið raunveruleikann og eðlileg viðbrögð manna við haglabyssuskot í andlit.
Ég ætla nú ekki að vera leiðinlegri en þetta við þá sem komu að gerð þessarar myndar, enda flestir þeirra komnir vel á aldur og myndu örugglega bregðast illa við við sterku skoðanir mínar.
Hljóðið var stundum óþægileg, ég held að það hafi frekar tengst skæru röddum leikkvennanna en um upptöku, klippingu og lýsingu get ég ekki annað en gefið hrós, en mér þótti myndin vel gerð í alla staði, sérstaklega miðað við að hún sé hátt í 55 ára gömul. Einn góður punktur til að byggja upp spennu fannst mér var söngur mannsins. Um leið og maður heyrði hann syngja var augljóst að eitthvað slæmt væri í vændum og verð ég að gefa stig fyrir það.
http://www.doctormacro1.info/Images/Mitchum,%20Robert/Annex/Annex%20-%20Mitchum,%20Robert%20(Night%20of%20the%20Hunter,%20The)_01.jpg
þessi var svolítið hamslaus í ofleik stundum

Núna ætla ég að vona að þú dragir mig ekki niður í einkunn fyrir að rægja mynd sem þér finnst góð Siggi Palli. :) Ég hef nánast ekkert vit á listum né bíómyndum og endurspeglar þetta blogg einungis álit mitt, en ekki persónugerð mína. Slæm reynsla mín á þessari mynd gæti líka haft eitthvað að gera með það að klukkan var 3 á miðvikudegi og eftir stuttan svefn og tvöfaldan stærðfræðitíma er ég ekki sem best upplögð í annars konar áhorf en heilalausar gamanmyndir.

Saturday, October 31, 2009

Jóhannes

Jóhannes (2009) leikstjórn Þorsteinn Gunnar Bjarnason einkunn 7,0/10 á IMDb.

Fyrsta myndin sem Laddi leikur aðalhlutverk í og hann stendur sig með prýði, enda einn besti leikari á Íslandi.
Jóhannes (Ladda), miðaldra karlmaður í hjónabandi sem má kallast í meðallagi stöðvar á Reykjanesbrautinni til að hjálpa Tótu, ungri stúlku (Unnur Birna) í bílavandræðum (en hún er síðan bara bensínlaus). Hann gefur henni far í bæinn og til að þakka fyrir sig gefur hún honum drykk heima hjá sér og hendir honum í bað. Atburðarásin hraðast þegar kærasti hennar, ofbeldisfullur handrukkari, kemur heim. Þá hendist Jóhannes út á götu nærrum nakinn og nágranni hringir á lögguna. Eftir það byrjar skemmtileg gaman-atburðarás þar sem greyið maðurinn lendir í óheppnasta dag lífs síns og samantvinnist t.d. lögreglan og Stefán Karl en þeir Laddi taka vafasöm lyf og skemmta sér ágætlega saman.

Mér fannst hún allt í lagi. Alls ekki sjöa. Mér líkaði þó mun betur við hana eftir að hafa séð leikstjórjann, Þorstein í tíma daginn eftir. Hann var viðkunnanlegur maður og hafði greinilega gaman af því að gera myndina. Myndin var langdregin á köflum eins og endalausu senurar af Ladda í bílnum, sem hefði mátt klippa um helming. Ég tók ekki eftir litlu mistökunum eins og þegar stígvél voru stillt upp mismunandi á milli klippa eða munurinn á rigningunni eða bleytu á götunni. Allt í allt var þetta ágæt mynd, en ég myndi ekki borga 500 kall til að fara á hana aftur.
http://www.illuminium.com/news/illuminiumtoco-producecomedyjohannes/laddi_skissa14.jpg

The Proposal

Sandra Bullock og Ryan Reynolds leika í The Proposal, frá árinu 2009, hún fær 6,9/10 í einkunn á IMDb. Ég efast um að ég myndi gefa henni svo háa einkunn.

Margaret Tate (Bullock) er metnaðafullur kanadískur ritstjóri í New York sem á að vera send úr landi vegna grænakorts vesens. Til að bjarga sér segist hún ætla að giftast dygga aðstoðamanni sínum, Andrew (Reynolds), sem er varla til í tuskið. Til að sanna fyrir yfirmönnum sínum og innflytjandaeftirlitinu að þetta sé satt, ferðast þau norður á boginn til Alaska að heimsækja fjölskyldu Andrew þar sem amma hans (leikin af Betty White). Eftir stormasama helgi og 2 ár í hatrömmu starfssambandi komast þau náttúrulega að því að þau eru yfir sig ástfangin af hvoru öðru, og endar myndin í opinberum Hollywood kossi.

Í gæðum skortir myndina margt, en inn á milli koma heilalauslega fyndnar senur. Til að nefna þegar asnalegur illa vaxinn maður dansar stripp dans og fálki flýgur um loftin blá með hund í gripunum. Og auðvitað fara bæði aðalleikaranna úr fötunum og liggja blaut og nakin á gólfinu. Þetta er týpísk heilalaus Hollywood ástar-gamanmynd. En það er alveg hægt að hafa gaman að henni. Augljóslega er þetta stelpumynd, enda hristi vinur minn (sem ég hafði næstum því mútað til að horfa á hana með mér) hausinn við dramatíska, tilfiningaþrungna, augljóslega endinum. Anne Fletcher leikstjórinn er aðallega danshöfundur og þetta er frumraun hennar sem leikstjóri, greinilega. Leikstjórn og upptaka er í fínu lagi en auðvitað í svona "commercial" mynd eru hátækni græjur og fagmenn.
Sem aðdáandi heilalausra mynda mæli ég svo sem með henni, fyrir stelpur.
The Proposal

Monday, September 21, 2009

RIFF 2 - Bandaged

Ég hafði lesið mig aðeins til um þessa mynd áður en ég sá hana og vissi að stelpan myndi fyrirfara sér, en ég bjóst við að hún myndi reyna betur en það að skvetta einhvers konar sýru framan í sig bara á helminginn af andlitinu. Ef hún hefði virkilega verið að reyna þá hefði betri leið verið að drekka einfaldlega úr flöskunni. Þá vafðist fyrir mér af hverju í ósköpunum stelpan þyrfti að liggja hreyfingarlaus í margar vikur (eða það virtist líða það langur tími af mínu lífi á meðan á myndinni stóð) þegar hún var, jú, bara með brunasár í andlitinu. Það er kannski minna mál heldur en hræðilegu erótísku senurnar sem virtust standa í marga tíma einar og sér.

Soft-porn atriðin hjá þjóðverjunum með hræðilegu hreimana var langdreginn og grunnhyggin, allavegana fyrir manneskju af því kyni sem hefur ekkert danglandi milli lappana. Hver kyssist annars með því að sleikja tennurnar á makanum? Ekki ég. Ég bjóst einhvern vegin við því að karlmenn höfðu borið ábyrgð á þessari mynd og var frekar hissa þegar ég komst að því að bæði höfundurinn og leikstjórinn eru konur. Ég vissi ekki að konur hefðu svona gífurlegan áhuga á brjóstum, en svo komst ég að því að leikstjórinn er S&M framleiðandi. Það útskýrir margt.

Ég skildi ekki alveg málið með pabbann og nýstárlegu kenningar hans til ad græða stelpuna, eða bara af hverju hún mátti ekki fara út úr húsi en það hefði mátt vera skýrara. Auk þess að mér þótti hallærislegt að leikararnir skyldu tala bjagaða ensku í stað þýsku, þýskt tal með enskum texta hefði örugglega komið betur úr. Til að gera langa sögu stutta þá fannst mér ég ekki vera betri né upplýstari manneskja eftir þessa mynd.


Lessuklám er ekki fyrir alla.

RIFF 1 - American Astronaut

Orðin "vísindaskálsögulegur geimvestri og söngleikur" var nóg fyrir mig til að vilja ekkert heitar en að sjá þessa mynd. Ég fer sjaldan með miklar væntingar í bíó en þegar ég labbaði inn í salinn var ég hrædd um að myndin væri algjört flopp og myndi ekki vera jafn góð og ég vonaðist til. Það voru um það bil 4 mínútur byrjaðar af myndinni og eitt flott atriði einfaldlega af manni hoppandi í geimgalla þegar ég emjaði af hlátri og taldi þetta vera besta vísindaskáldsögulega geimvestra söngleikinn sem ég hafði séð.
Kannski á "simple mind, simple pleasures" vel við mig, (ég tel það líklegt) en þegar tveir menn syngjandi og dansandi inni á baði á geim-bar fær fullan sal af fólki til að hlæja, þá hlýtur þetta að vera góð mynd. Súrir kaflar koma inn á milli, og í rauninni er öll svolítið súr, en hún heldur athygli manns frá upphafi til enda, og ég hætti allavegana ekki að brosa alla myndina.

Plottið um að aðalpersónan þarf að fara með konu í kassa til Júpíter, sækja strákin sem hafði séð kvenmannsbrjóstin, fara með hann til Venusar og skipta honum út fyrir lík fyrrverandi konungs þeirrar plánetu til að verða ríkur hljómar kannski ekki spennandi á blaði, en leikstjórinn, handritshöfundurinn og aðalleikarinn (allt sama manneskjan) er snillingur, hann gæti tekið einföldustu senu og snúa uppá hana og á hvolf og út kæmi listaverk.

Það má bæta því inn í um leikstjórann, Cory McAbby, að hljómsveitin hans sér líka um tónlistina. En tónlistin er eitt helsta atriðið sem gerir þessa mynd svona yndislega. Dans og söngatriðin gerðu myndina óneitanlega að því sem hún er. Satt best að segja þá er þetta ein skemmtilegasta mynd sem ég hef séð.
Mynd sem fær mig til að brosa allan hringinn í nokkra klukkutíma eftir að ég labba út af henni fær allavegana topp einkunn hjá mér.

Topp myndirnar..

Ég er ekkert mikið bíómyndafanatic.. Ég heillast bara að myndum sem heilla mig, oftar en ekki eru það sappy rómantískir söngleikir og það verður bara að hafa það.

Across the Universe
Ég hef veikleika fyrir Bítlunum, söngleikjum og óstöðvandi-ástarsögur. Allt einkennir þetta eina bestu mynd allra tíma! Tónlistin er alveg hreint mögnuð - aldrei hefði ég getað ímyndað mér að hlusta á endurgerðir af Bítlalögum, en eftir að hafa séð þessa mynd hlusta ég frekar á soundtrackið heldur en meistarana sjálfa. Hún er hröð, spennandi, yndisleg og sæt. Það skiptir ekki máli hvað ég horfi á hana oft, ég elska hana bara meira og meira í hvert skipti. Það er reyndar eitt sýruatriði sem ég hef lært að þola, en spóla oftast yfir það ef ég nenni.. Öll ástin bætir samt upp fyrir það, og ekki skemmir það að Jim Sturgess er einn mest aðlaðandi maður allra tíma.

American History X
Með 3 eldri systur og endalaust af VHS myndum var mér kennt að ef ég elskaði ekki Sean Connery og Edward Norton væri ég ekki neins virði. Kannski er þetta heilaþvottur, kannski ekki, en þetta er svo vel leikin mynd að ég get ekki annað en haldið upp á hana. Svo er þetta bara áhugaverð saga og gott handrit.





Benjamin Button
Ég er bara nýbúin að sjá hana, og bara einusinni annað en flestar á listanum. En hún einhvernvegin snertir mann. Hún er vel gerð, sæt og áhugaverð, og ég sakk svo djúpt inní myndina að ég pældi ekki einusinni í fáranlegu hugmyndinni að maðurinn væri að eldast afturá bak. Full af yndislegum persónum og lífsreynslum. Ég er venjulega ekki aðdáandi Brad Pitt, en hann lék þetta vel.

Die Hard 1,2 og 3

Það er ekkert mikið hægt að segja en það að þetta eru bestu hasarmyndir sem hafa verið gefnar út. Ég var látin horfa á Bruce Willis berjast við óþokka frá því að ég var þriggja ára gömul. Myndirnar eru rúmlega 20 ára gamlar og ég horfi samt á þær minnst tvisvar á ári. Brúsi gerir þær ódauðlegar og þýsku vondu kallarnir með hreimina eru bara ástæða ein og sér til að elska þær. Uppáhalds hlutinn minn er samt alltaf að horfa á wife-beaterinn verða skítugari og skítugari með hverri mínútu, þar til á endanum er hann samblanda af blóði og drullu.



Lion King
Ég fór á hana í bíó fjögurra ára gömul og varð ástfangin. Eftir að pabbi minn keypti hana í bandaríkjunum horfði ég á hana einu sinni á dag í allaveganna ár. Kunni hvert einasta orð utan að og söng fullkomlega með öllum lögunum. Ég held að það hafi ekkert hrjáð mig að ég kunni ekki stakt orð í ensku. Ég þurfti ekkert að vita hvað þau voru að segja.



The Prestige
Hugh Jackman og Christian Bale í sömu myndinni er alveg nógu góð ástæða til að halda uppá þessa mynd, en hún er svo vel leikin og útfærð að ég fell næstum því fyrir plottinu í hvert skipti sem ég horfi á hana. Veit ekkert hvað annað er hægt að segja. Ég heillaðist bara að öllu í henni.











Svo ætla ég bara að nefna 4 í viðbót sem þarf ekkert að útskýra
Love Actually
Moulin Rouge
Turner and Hooch
Walk the Line