Saturday, April 17, 2010

!

Ég athugaði á síðuna þína og þar sem ég hóf "síðasta bloggið mitt" í febrúar þá kom það ekki upp sem nýtt blogg á síðunni þinni.

Til að forðast allan misskilning set ég þetta inn til að vekja athygli á því að ég á 3 ný blogg; A Sound of Thunder, Taking Woodstock og Bucket List

Takk takk og takk frir veturinn!

Magga

Friday, April 16, 2010

Taking Woodstock [2009]


(Vil bæta inn hér að mér finnst nafnið hans Emile Hirch svolítið ofnotað í öllum auglýsingum, viðtölum og umfjöllunum um myndina, þar sem hann leikur ekkert svo stórt hlutverk. Hlutverkið hans er krefjandi og hann leikur það stórkostlega, en eins og þegar ég talaði við Svanhvíti sem hefur ekki séð myndina, þá hélt hún að hann léki aðalhlutverkið því nafnið hans og hann hefur verið svo nýttur í umfjallanir um hana)

Leikstjórn: Ang Lee (Brokeback Mountain; Crouching Tiger, Hidden Dragon)

Tagline: - A Generation Began In His Backyard -

Meðal leikara:

Demetry Martin (Elliot Teichberg)

Eugene Levy (Max Yasgur)

Emile Hirsch (Billy)

Liev Schreiber (Vilma)


Byggt á sannri frásögn Elliot Tieber sem átti stóran hlut í að gera Woodstock að því sem það varð.

Sumarið 1969. Elliot Teichberg innanhúsarkitekt þarf að flytja heim í sveit til foreldra sinna í White Lake, New York þar sem þau eiga motel, en þau eru gjörsamlega blönk og að fara að missa allt. Pabbi hans stingur upp á að brenna allt til kaldra kola - sem gengur ekki upp þar sem hann er ekki búinn að borga trygginguna. Þau eiga varla nóg fyrir mat og Elliot hefur ekki hugmynd hvað hann á að gera, sérstaklega semhann er að reyna að koma út úr skápnum í leiðinni.

Þegar Elliot heyrir af því að tónlistarhátíð (Woodstock) sem átti að fara fram í nálægri sýslu hafi farið í vaskinn vegna þess að leyfi var dregið til baka fékk hann hugmynd. Hann kallar til umsjónamenn hátíðarinnar og fær hátíðina til að vera haldna á nálægum sveitabæ við hótel foreldra sinna í von um að draga til sín viðskipti.

Þrem vikum seinna mætir hálf milljón manns í garðinn hans og Elliot berst inn í frægustu tónleikahátíð allra tíma - sem um leið skilgreinir kynslóð hippana og heldur uppi minningu þeirra um ókomin ár.


Þegar ég las fyrst um myndina og byrjaði að horfa á hana hafði ég eina áhyggju og bara eina. Hvernig í óskupunum ætla þeir að sýja tónleikana sjálfa, sem eru, jú, í aðalhlutverki. Hvernig ætla þeir að sýna Janis Joplin og Jimi Hendrix þegar þau dóu fyrir 40 árum?
Ég var sátt þegar myndin endaði að ég þurfti aldrei að kljást við það vandamál, því tónleikarnir sáust aldrei.
Ég hef lesið í nokkrum ummælum að fólki finnist tónlistina vanta, en Woodstock er ekki aðalmálið - heldur fólkið sem hún hafði bein áhrif á, og þá sérstaklega Elliot. Hans innri togstreyta um kynhneigð og vilji til að hjálpa foreldrum sínum er aðalatriði myndarinnar, þannig að þetta er ekki mynd fyrir þá sem vilja upplifa Woodstock sjálfa.
Þemað á myndinni er mjög gott að mínu mati því tónleikarnir skipta í rauninni engu máli. Myndin fjallar bara um þennan greyið misheppnaða dreng sem fær góða hugmynd og sannfærir fólk í kringum hann til að treysta honum og að þetta endi allt vel, en svo bara birtist hálf milljón manns og þá fer öll myndin í baráttu hans við mannfjöldann.
Hann kemst einu sinni inn á tónleikasvæðið sjálft en þar hoppar hann nokkurn vegin beint upp í bíl til hippa-pars sem gefur honum sýru og svo fara þau öll að njóta frekar litríks kynlífs.

Í þessum bíl stunduðu þau litríkt kynlíf (Paul Dano úr The Good Heart)

Ég hafði gaman að þessari mynd sérstaklega því foreldrarnir eru frekar brjáluð og skemmtilegir karakterar. Mamman er peningagráðug og skiptir hverju hótelherbergi upp í 4 herbergi með lökum sem skilrúm og er alveg dásamlega í sínum eigin heimi. Pabbinn vinnur baki brotnu dögunum saman eftir komu hippana og er óskup ljúfur maður sem vill syni sínum bara fyrir bestu.
Elliot sjálfur er frekar aumingjalegur, en persónan hans vex á þessum nokkru dögum sem myndin spannar, hann öðlast meiri sjálfsöryggi og kemur út úr skápnum.


Án þess að ég vilji hljóma neitt fordómafull þá segi ég two thumbs up fyrir kínverjanum sem nær að fanga það sem ég ímynda mér sé fullkomin eftirlíking af stemmningu og þema Woodstock, það getur ekki hafa verið auðvelt. Þó það sjáist aldrei á tónleikana þá eru persónurnar (og þá sérstaklega Vilma - ég ELSKA Liev Schreiber í því hlutverki!) sem eiga leið fram hjá (Bendi líka á leikhópinn Earthlight Players) og klæðaburðurinn, "ligeglad" stemmningin á öllum og HJÖRÐUNUM sem flykktust þarna að á þessa tónleika.

Eitt sem mér fannst ekki alveg nógu flott var þegar það var tekið skot yfir allan mannfjöldann á tónleikunum þá var það svo úr fókus - það gerði þetta svo óraunverulegt eins og þau nenntu ekki að sýna áhorfendurna - nenntu ekki að photoshoppa það eða hvernig sem þau gera þetta! Kannski er þetta bara smámunasemi í mér.

Liev Schrieber sem Vilma

Ég hef nú ekkert mikið meira að segja en að þessi mynd fangaði hjarta mitt og fékk fram nákvæmlega þær tilfinningar sem ég held að hún hafi átt að gera. Ég óskaði mér þess heitast að hafa getað verið uppi á þessum tíma!
Leikurinn er allur góður og öðru hvoru birtast leikarar sem maður kannast við (t.d. Emile Hirch, Eugene Levy, Paul Dano og Dan Fogler). Karekterarnir hafa flestir goofy og fyndna mannlega eiginleika - suma sem maður getur tengst og suma sem maður hlær bara að.
Myndatakan er góð og það er góð nýting á litum í myndinni - enda gerist hún á hippatímanum! ;)

Veit ekki hvað meira ég á að segja en bara "Two thumbs up" og ef þig vantar upplyftingu eða gleði í lífið þá mæli ég með þessari mynd sama hvað þú ert gamall/gömul!

Peace out.


Gott atriði - það kemur kannski vel fram að Velma er uppáhalds persónan mín!

The Bucket List [2007]


Ég einfaldlega veit ekki hvar ég á að byrja að fjalla um The Bucket List. Held að mér finnist hún galla laus. Hún byrjar hægt og rólega kynnir líf og persónur Carter Chambers (Morgan Freeman) og Edward Cole (Jack Nicholson). Edward Cole er ríkur, upptekin af sjálfum sér og (for the lack of a better word) ruthless. Hann er viðskiptamaður sem á einkarekna spítala sem hann rekur eingöngu til að græða. Carter Chambers hinsvegar er látlaus bifvélavirki sem er gáfaður, elskar fjölskyldu sína og eiginkonu og er tilbúinn að færa miklar fórnir fyrir þau.

Carter og Edward kynnast þegar þeir þjást báðir af krabbameini og eiga hvorugir mikið eftir af lífi sínu. Edward kemst að því að Carter hefur ekki lifað lífinu eins og hann telur að manneskja eigi að gera og leggur af stað í að uppfylla óskir sem þeir hafa skráð á “Bucket list” (Einnig þekkt sem reaper list eða life to-do list). Þetta ferðalag er ótrúlegt ævintýri sem flestum langar líklega að upplifa.

Handritið af myndinni er ótrúlega vel skrifað enda er það byggt á bók og hönfundurinnn Justin Zackham skrifar handritið sjálfur. Ekkert samtal virðist tilgangslaust, persónurnar eru viðkunnanlegar, raunverulegar og ég held að flestir geti samsamað sig öðrum hvorum þeirra ef ekki þeim báðum.


Það sem gerir myndina svona frábæra er samt líklega duo-ið Morgan Freeman og Jack Nicholson. Þeir leika persónur sínar af svo mikilli innlifun. Samtölin milli þeirra eru frábær og sömuleiðis þöglu mómentin. Nicholson tekst að gera hinn kaldrifjaða Cole djúpan og góðan karakter sem maður getur ekki hætt að hlægja með, þá sérstaklega vegna þess hvernig hann lýtur á lífið og dauðann:

Edward Cole: We live, we die, and the wheels on the bus go round and round.

Litli faldni gullmoli myndarinnar er þó Sean Hayes sem leikur Thomas aðstoðarmann Edward Cole. Persónan er bæði mjög vel skrifuð með frábærar setningar og leikinn af öryggi. Sean Hayes sýnir vel hvað hann hefur gott "comic timing".

Myndin hreif mig með sér og uppfyllti allar mínar væntingar.

Saturday, April 10, 2010

Hot Tub Time Machine [2010]

Leikstjórn: Steve Pink

Auglýsingin sem hefur hljómað á Fm957 undanfarnar vikur er eitthvað á þennan veg:
"Þeir djömmuðu feitt 2010, en vöknuðu svo upp 1986"
Í fyrsta lagi, þá eru fáar tímaflakks myndir sem mér finnst eitthvað varið í, og í öðru lagi, þá er "vöknuðu upp" ekki íslenska!! Maður segir þeir vöknuðu. Punktur. Vaknaði upp er ensku sletta og það hljómar bara rangt. Það er eins og einhver segir að hann ætli að taka sturtu. Hvert ætlar hann að taka hana?


Ég bjóst sem sagt ekki við miklu þegar ég fór á Hot Tub Time Machine, en ég verð að viðurkenna að hún kom mér skemmtilega á óvart. Með mörgum sprenghlægilegum atriðum og alvöru, en gjörsamlega fáranlegum 80's fatnaði, er þetta besta tímaflakks mynd sem ég hef séð hingað til.


Vandamál vinanna Adam (John Cusack), Nick (Craig Robinson) og Lou (Rob Corddry) dregur þá í skíðabæ þar sem þeir áttu bestu helgar lífs síns 20 árum fyrr. Adam tekur Jacob (Clark Duke úr sjónvarpsþáttunum Greek), systurson sinn með sér og lofar honum að þetta verði besta helgi lífs hans, nema hvað þegar þangað er komið virðist enginn hafa komið þangað í 20 ár. Bærinn er hálfpartinn yfirgefinn og það eina sem þeir hafa að gera er að detta í það og fara í pottinn.
Eftir vægast sagt brjálað fyllerí fjögurra naktra karlmanna og á tímabili stórs bangsa vakna þeir í pottinum og skella sér upp í fjall.
Smám saman þegar þeir sjá alla marglituðu skíða-samfestingana, kasettutækin og Miami Vice bolina átta þeir sig á því að þeir eru komnir aftur í tímann. Það langt að Jacob hefur ekki einu sinni verið getinn. Þá kemur góð lína frá Nick þegar hann grípur í stelpu og spyr: "What color is Michael Jackson?" - fun fact : sú lína var ekki í handritinu.
"Pottaviðgerðamaðurinn" (Chevy Chase) segir þeim að þeir verði að endurtaka allt sem þeir gerðu þessa helgi árið 1986 á nákvæmlega sama hátt ef þeir vilja ekki eyðileggja framtíðina með Butterfly Effect. Þannig að þeir neyðast til að sofa hjá sömu stelpunum - aftur, hætta með fyrrverandi kærustum - aftur og vera lúbarðir - aftur.
Aðalmarkmið þeirra er samt ekki að djamma í 9. áratuginum, heldur að komast eins langt í burtu frá 1986 og þeir geta.


Mér fannst þetta alveg bráðskemmtileg mynd. Handritið er vel skrifað og leikararnir standa sig allir með prýði. Maður pælir ekki einu sinni í fáranleikanum við að ferðast aftur í tímann því maður dettur svo inn í söguþráðinn. Ég hló upphátt allan tímann, sem gerist ekki oft.
Hún minnir mann svolítið á The Hangover, nema bara á skíðahóteli með helling af neon litum og legwarmers! Það er hellingur af "80's references" og leikarar frá 9. áratuginum sem ég persónulega fattaði ekki fyrr en ég las um hana, því ég var, jú ekki fædd þá! En þessi atriði hljóta að vera auka prik fyrir myndina fyrir þá sem voru uppi á þessum tíma.

Ég veit ekki alveg hvað ég ætti að setja út á varðandi myndina, kannski helst hvað persónan hans Rob Corddry (Lou) er pirrandi, en þannig á hann bara að vera!

Trailerinn "doesn't do it justice", hvernig sem maður segir það á íslensku! En línan "It's some sort of hot tub time machine" þar sem Craig Robinson horfir beint í myndavélina, var heldur ekki í handritinu.

Ég vil ekki eyðileggja myndina fyrir þeim sem ætla að sjá hana, og segi bara að ég mæli eindregið með henni, og farið á klósettið áður en þið setjist inn í sal!

Waterworld [1995]

-Beyond the horizon lies a new beginning-

  • Leikstjórn: Kevin Reynolds
  • Lengd: 135 mín.
  • Leikarar:
  • Kevin Costner – The Mariner
  • Jeanne Tripplehorn – Helen
  • Tina Majorino – Enola
  • Dennis Hopper – Deacon (The Duke of the Deez)

Tíminn er 22:45 á miðvikudegi í páskafríinu. Staðurinn er Hagkaup í Garðabæ. Opið allan sólahringinn!

Vegna þess hvað ég er komin með ógeð á öllum myndum á vídjóleigum lá leið mín í 999 kr bíómyndahorn Hagkaups að freista gæfunnar. Eftir þriggja mínútna vafr um hinar ýmsu misgóðu myndir, festist augnarráð mitt á einni. Þetta var engin venjuleg 999 kr. mynd. Þetta var gullmoli. Mér leið eins og ég hafi bókstaflega fundið pening þarna í ljótu gráu hillunum í Hagkaup. Í eins konar vímu þar sem ég gat ekki hætt að brosa borgaði ég fyrir poppið mitt, kókið... jú, og Waterworld.

Þegar ég var 10 ára gömul fékk ég Waterworld lánaða hjá vinkonu minni á VHS. Hún hafði horft á hana það oft að spólan var eydd og „rispuð“, ef maður má segja það um VHS spólu. Þessi vinkona mín trúði því einfaldlega ekki að ég hefði aldrei séð þessa mynd – og skiljanlega, því Waterworld er meistaraverk.

Aðdáun mín á þessari mynd gerir það að verkum að síðustu vikuna er ég búin að segja flest öllum vinum mínum frá þessum stórkostlega fundi mínum – og oftar en ekki eru þeir dolfallnir af öfundsýki.

Waterworld þurfti að sæta frekar harða gagnrýni áður en hún var gefin út. Kevin Kosner virðist ekki hafa verið vinsæll á þessum tíma og margir hraunuðu bókstaflega yfir myndina án þess að hafa einusinni séð hana.

Nokkur hundruð árum fram í tímann, þegar gróðurhúsaáhrifin hafa brætt alla jökla og hækkað sjávarmálið upp yfir öll lönd, er eini kostur mannkynsins að lifa á bátum og prömmum. Matur, vatn og vörur eru til í litlum mæli og mold er það dýrmætasta sem mennirnir eiga.

Á meðan menn búa annað hvort einir á bátunum sínum (kallaðir drifters) eða saman í litlum samfélögum í fljótandi virkjum (Atolls) er eina markmið lífsins að stunda viðskipti til að fá mat og vatn, til að lifa af. Í svona bágbornu samfélagi eru náttúrulega einhverjir sem misnota sér aðstöðu fólksins til illverka. „Smokers“, hópur skítugra óþrjóta á jet-skium, bátum og sjóflugvélum eru vondu kallarnir í myndinni sem ráðast á þessi samfélög, drepa og stela. Þeir draga nafn sitt bæði frá reyknum sem kemur úr vélknúnu faratækjunum þeirra og það að þeir reykja eins og strompar.

Þegar fréttist að merkingar á baki lítillar stelpu, Enola (Tina Majorino) séu leiðarvísir til Dryland – andstæðu Waterworld, vilja óþrjótarnir stela henni.

Aðalsöguhetjan, the Mariner (Kevin Cosner) er einfari með smávægilegar stökkbreytingar í átt að fisk, sem gerir honum kleift að synda niður að hafsbotni og finna ýmsan munað, mold og fleira. Hann rekur í átt að litlu fljótandi samfélagi og ætlar að stunda viðskipti við þau – en þegar þau komast að því að hann sé öðruvísi, með tálkn og fit, læsa þeir hann inni og ætla að taka hann af lífi. Þá birtast þrjótarnir og hyggjast stela litlu stelpunni með kortið á bakinu. Með því að bjarga lífi Marinersins komast Enola og forráðamaðurinn hennar, Helena (Jeanne Tripplehorn) undan.

Næstu 90 mínútur myndarinnar sýna samskipti Mariners við stúlkurnar tvær, sem teljast varla góð og barátta þeirra þriggja við „The Smokers“, sem virðast alltaf vera á hælum þeirra.

Nokkur atriði fara í taugarnar á manni við að horfa á þessa mynd.

  • Menn eiga vatnssíur, en af einhverjum ástæðum virkar það ekki við að hreinsa sjó, sem er nú ekki í útrýmingahættu.
  • Annað atriði er matarskorturinn, maður myndi halda að nægur fiskur væri í þessu óendanlega vatni, en það er greinilega ekki auðvelt fyrir þetta fólk, sem búið hefur í og á vatni allt sitt líf, að veiða.
  • The Smokers eiga nánast endalausar byrgðir af sígarettum, þegar tóbak hefur ekki verið ræktað í nokkur hundruð ár.
  • Ótrúlegt er líka að þeir hafa haft nógu mikla olíu til að endast þeim nokkur hundruð ár, auk þess sem vélarnar þeirra (vélbátarnir, jet-skiin og flugvélarnar) gætu væntanlega ekki enst svona lengi. En svo er, jú, olían þeirra að klárast í enda myndarinnar – áður en Kevin Costner sprengir olíuskipið þeirra í loft upp.
  • Persónulega finnst mér nokkur hundruð ár frekar stuttur tími fyrir stökkbreytingar á borð við tálkn.

Söguþráðurinní þessari mynd er ekkert verri en aðrir. Lífsbarátta mannsins, ástir og ádeilur milli fólks eru allt frekar týpísk efni í kvikmynd, og samtvinningur þeirra búa til eitt stykki góða kvikmynd. Margir tala um söguþráðinn sem langsóttann, en hann er ekkert langsóttari en til dæmis Pirates of the Caribbean, sem er elskuð af öllum bara því Johnny Depp er í henni.

Leikurinn er ágætur – versti leikurinn finnst mér hennar Tinu (Enola), en það er ekki hægt að ætlast of mikið af 10 ára barni. Sjaldan hef ég samt séð fallegra barn.
Það eru skiptar skoðanir um hvernig Kevin Costner stóð sig og ég hef séð nokkrar umfjallanir um að persónan hans sé of reið og einangruð. Ég spyr bara; hvernig værir þú ef þú værir stökkbreytt frík sem byggir eitt úti á sjó? ha?
Persónan hans mýkist svo þegar líður á myndina og hann er orðinn frekar væminn og sætur í endann.
Jeanne Tripplehorn leikur ágætlega líka, en helsti kosturinn hennar er hvað hún er sláandi falleg.
Það sama má segja um Dennis Hopper sem leikur trúverðugt illmenni. (um hversu vel hann leikur, ekki hve sláandi fallegur hann er). Ekki sakar þegar hann hefur misst augað og er með lepp það sem eftir er af myndinni

Búningarnir eru líka mjög góðir. Frekar trúverðugir tötrar og vel gerðir.

Það er til 175 mín. útgáfa af myndinni (venjulega myndin er 135 mín.) og ég væri til í að sjá hana. Ég hef lesið að í lengri útgáfunni fái maður aðeins betri sýn inn í söguna og svörum við mörgum algengum spurningum úr söguþræðinum er svarað.

Ég held að höfundar myndarinnar fái þær tilfinningar úr áhorfendum sem þeir vilja. Þrátt fyrir skaphita og dónaskap Costners er samúðin samt sem áður með honum. Maður vorkennir honum svolítið vegna þess hve öðruvísi hann er og útskúfaður úr samfélaginu. Það er líka skemmtilega sætt hve ákveðin Enola er og hvað hún er með stóran persónuleika.

Þegar ég athugaði hvað Tina Majorino (1985) væri að gera í dag fann ég enga mynd sem ég kannaðist við, nema Napoleon Dynamite (hún leikur Deb). Hún breyttist nú ekkert mikið á þessum 9 árum sem liðu á milli þessara persóna, en leikur mjög skemmtilega persónu þar lika. Hún hefur þó leikið í nokkrum þáttum, eins og Veronica Mars og núna leikur hún í þáttunum Big Love, með Jeanne Tripplehorn!

Gaman er að vita að við lok upptöku á myndinni labbaði Kevin Reynolds út og Kevin Costner þurfti að klára að taka myndina upp.

Þegar Waterworld kom út árið 1995 hafði verið mjög slæm umfjöllun um hana og dómar, meira að segja áður en hún kom út. Fólk vildi ekki að athygli væri beint að gróðurhúsaáhrifum og alheimshlýnun, og með fólk þá meina ég Bandaríkjamenn. Auk þess er Kevin Costner ekki elskaður af öllum. Sjálf finnst mér þetta frekar fordómafullt af fólki að dæma þessa mynd svona hart fyrirfram þar sem hún er í rauninni mjög góð. En þá vita þau bara ekki af hverju þau missa!
Þrátt fyrir þessa slæmu dóma um þessa ófrumsýndu mynd græddi hún 80 milljónir dollara í bíóhúsum, og þá á eftir að taka með í reikninginn sjónvarpssýningar, VHS, DVD, Blu-ray og fleira.

Ég veit ekki hvað ég á að segja annað en að ég held mikið upp á þessa mynd. Mér finnst hún skemmtileg og „öðruvísi“ en hin týpíska mynd. Með því að pæla aðeins í umhverfinu sér maður hve erfitt það hefur verið að taka þessa mynd upp.

(Hún er tekin upp í og við Californiu og Hawaii)

Lokauppgjörið er líka ágætt. Þau ferðast um í loftbelg þar til þau finna það sem ætti að vera Mt. Everest (kemur betur fram í lengri útgáfu myndarinnar). Þó finnst mér asnalegt að Kevin Costner ákveði að vera ekki eftir á eyjunni. Hann fer aftur í að eiga sér einmannalegt líf með sjálfum sér úti á sjó. Þó svo að hann sé með tálkn og samvaxnar tær þá væri samt mun auðveldara fyrir hann að búa á landi! Sérstaklega þegar hann er nýlega orðin ástfanginn af einni fallegustu konu heimsins! Þetta er samt hans val og ég verð að virða það.

Að lokum verð ég bara að segja að ég er stolt af 999 kr. kaupunum mínum.

Hádramatíski trailerinn.

Mér heyrist þetta vera Mufasa sem er að tala inn á hann - en ég er þó ekki alveg viss

Skemmtileg VHS auglýsing


Thursday, April 8, 2010

Dómur um kvikmyndagerð 2009-2010


Þegar ég var að velja valfag fyrir rúmlega ári, hljómaði kvikmyndagerð einfaldlega lang best. Bæði var þetta 6 eininga fag og þetta var eitthvað sem ég hafði í alvörunni áhuga á - annað en danska eða hagfræði. Ég meina, hver hefur ekki áhuga á kvikmyndum?

  • Til að byrja með vil ég segja að mér finnst andinn í tímunum mjög afslappaður og góður. Venjulega er verið að tala um skemmtilegar og áhugaverðar hliðar á kvikmyndagerð og myndbandsbrotin sem hafa verið sýnd í tengslum við það sem við erum að læra hjálpa til við að skilja hvað er í gangi. (Að "A Piece of Apple Pie" frátaldri - það var bara slæmt!) Allt sem við gerum í rauninni í morguntímunum finnst mér mjög skemmtilegt. Handritamappan og verkefnin í henni voru stundum svolítið erfið - svona þegar maður er gjörsamlega hugmyndasnauður en þarf samt að drita einhverju niður á blað, en verkefnin voru flest mjög góð kvikmyndagerðaverkefni. (Mér líkaði sérstaklega vel við þjóðsöguverkefnið)



  • Skemmtilegasti hlutinn fannst mér vera að taka upp myndirnar. Eins og það var oft stressandi, pirrandi og kalt var það að taka upp "alvöru" mynd lang skemmtilegasti hluti fagsins. Vinnslan var aðeins meira mál - aðallega því okkar mynd þurfti að vera klippt upp í tæplega 100 senur, en það var heldur ekkert svo slæmt. Nema þegar tölvan var leiðinleg og neitaði að taka við tónlist og hljóði og svona.



  • Það sem nýttist mér best voru örugglega bóklegu tímarnir og verkefnin. Að tala við alvöru leikstjóra og fá að vita hvernig það er að gera alvöru bíómyndir og hvernig þeir vinna í þeim hjálpaði líka til við að gefa manni heildarsýn á það hvernig það er að vera kvikmyndagerðamanneskja og/eða leikstjóri.

  • Versti hluti námskeiðsins var án efa Reykjavík Whalewatching Massacre og leikstjórinn sem henni fylgdi. Þetta var með verri hryllingsmyndum sem ég hef séð og maðurinn var gjörsamlega ófær um að tala fyrir framan hóp fólks - ekki það að leiðinlegu og dónalegu spurningar strákanna slá þetta greyið fólk stundum svolítið út af laginu.

  • Það er ekkert sem ég myndi mæla með að henda alveg út, mér finnst bloggið alls ekki skemmtilegur hluti af faginu, aðallega því það er svo erfitt að tjá sig um svona viðfangsefni á íslensku. (Þú mættir gefa fólki val um hvort þau skrifi á íslensku eða ensku!) En maður fær ekki allt sem maður vill - og þetta er skiljanlegur hluti af faginu.

  • Varðandi stuttmyndirnar segi ég já, þú átt að vera harðari á skiladögum. Marathonmyndirnar gengu ágætlega því þá fengum við bara einn dag, og þetta þurfti að gerast þá, en með heimildamyndirnar til dæmis, þá var of lítil pressa á okkur. Við erum löt- við megum ekki fá svona mikið svigrúm því, eins og Guðbjartur segir, þá erum við öll með frestunarsýki :)

    Guðbjartur
    Með því að hafa marathonmyndina bara í blábyrjun annarinnar (bara 1. vikuna í september) væri ekkert mál að láta krakkana geraheimildamyndina seint í október - byrjun nóvember, og hafa fastann tíma á þeim. Ekki lengur en 3 dagar fyrir hvern hóp eða eitthvað. Ef örmyndin eða það sem þú ert að leggja til (sem mér finnst góð hugmynd) væri þá gerð í janúar væri lítið mál að klára lokaverkefnið fyrir eða um páska. Þetta gæti verið ágætis hugmynd hjá þér að setja hverjum hópi fyrir dag til að sýna (nema með marathonmyndina, því þá er hver hópur bara með myndavélina í einn dag) - en ég veit samt ekki. Er þetta ekki bara fínt eins og þetta er núna? Til að draga þetta saman: Vera stífari á skiladögum og eigingjarnari á myndavélatíma!



  • Allt tengt myndavélinni gekk nú bara ágætlega. Það var frekar pirrandi að vera eina manneskjan á bíl, þar sem ég þurfti að vera að sækjast og sendast eftir myndavélinni og þessu og hinu, en ég efast um að það sé til betri leið en eins og þetta var gert í ár. Þetta gekk ágætlega.


    Þessi er hress.

  • Ég sé lítið að uppröðuninni á námsefninu - það er náttúrulega mikilvægt að kunna sumt af þessu eins og 180° reglunni áður en maður fer að taka upp. Handritamappan held ég að virki líka betur sem "fyrir jól" verkefni.

  • Hvatning til meiri og metnaðarfyllri bloggs.
    Nú veit ég ekki alveg hvað ég á að segja þér. Nema það að við erum 19 ára unglingar sem nennum ekki neinu. Mér persónulega finnst erfitt að koma skoðunum mínum fram á blaði (= í tölvu) og hef þess vegna ekki verið dugleg að blogga. Ég hef kannski miklar skoðanir um mynd, en smám saman fjarar það kannski út og ég næ ekki að tjá mig almennilega um myndina - sérstaklega þegar það er á íslensku! Kannski verðlaun fyrir þann sem bloggar mest?
    Mér finnst bloggin vera svoolítið mikil vinna. Maður þarf að skrifa ansi langt blogg fyrir 10 stig, og þegar ég er búin að skrifa 650 orða ritgerð þá nenni ég ekki einusinni að lesa hana yfir - svo ég efast um að það sé gaman fyrir þig að lesa allar málfræði- og stafsetningavillurnar mínar, auk þess sem að það hlýtur að vera stundum flókið og leiðinlegt að lesa skoðanir fólks sem það dritar niður hist og her á bloggsíðu.. eða hvað?
    Svo að fyrir komandi kvikmyndagerðar-námsmenn væri kannski fínt að fá svona checklist yfir það sem á að koma fram í góðu bloggi.

Á heildina litið var þetta bara hinn ágætasti áfangi. Ég er ekki alveg nógu sátt við kvikmyndavalið þitt.. En það er bara því ég hef ekki mjög fágaðan smekk á myndum!;)
Annars vil ég bara þakka þér fyrir skemmtilega tíma og vetur!

Tuesday, March 23, 2010

Smokin‘ Aces 2 - Assassins' Ball [2010]

Framhaldið (sums staðar kölluð prequel) af hasarmyndinni Smokin‘ Aces, þar sem fjölmargir leigumorðingjar keppast um að drepa ákveðið target, heitir Smokin' Aces. Þótt nafnið sé ekki frumlegt, er söguþráðurinn alveg jafn ófrumlegur. Það er, hann er sá sami.

Vinnie Jones ,Tommy Flanagan Tommy Flanagan, Martha Higareda Martha Higaredaog Autumn Reeser Autumn Reesereru meðal þeirra sem leika heimsfræga leigumorðingja sem fá upplýsingar um ákveðinn mann, Walter Weed, sem á að útrýma. Það furðulega er að Weed er skrifstofulögga sem hefur bara einu sinni skotið úr byssu – og það á pappírsskotmark. Hann virðist ekkert vera tengdur neinum hættulegum eða mikilvægum lögregluaðgerðum og er furðuhissa á þeim 3 milljónum dollurum sem er lofað þeim leigumorðingja sem drepur hann. Skilyrðin eru þó að morðið verði að vera framið kl 03:00 19. apríl.

Þegar plottið fer að afflettast (ef það er orð) komast upp leynilegar bandarískar her-aðgerðir sem tengjast þessum leigumorðingjum og allt fer að vera "rosalega" pólitískt og spennandi.

Clayne Crawford augnkonfekt Clayne Crawford leikur lögreglumanninn sem sér um aðgerðina og felur Walter Weed í neðanjarðabyrgi undir Jazz klúbb í Chicago. Þrátt fyrir leynilegar aðgerðir og gífurlega varkárni af hálfu lögreglumannanna rata allir leigumorðingjarnir á staðinn (annað væri ekkert rosalega spennandi) og fer seinni helmingur myndarinnar í hasarsenur á jazz klúbbnum og neðanjarðagöngunum sem liggja að byrginu.

Myndin er 86 mínútur, sem er með styttri myndum sem ég hef séð - en hún hefði varla getað verið lengri miðað við skort af söguþræði. Hún er ekkert rosalega vel leikin og þegar allt kemur til alls lélegt framhald af númer eitt - þar sem varla nein tenging er á milli þeirra. Jú, fyrir utan einn leikara og það að FBI flækist í söguþræðinum.

Fyrir þá sem fíla svona myndir - og með "svona myndir" er átt við mikið af byssum, blóði og heitum gellum (auk þess dvergum skotið úr fallbyssu) - er þessi mynd svosem ágætis skemmtun. Ég verð að viðurkenna að þetta er með skárri myndum sem ég hef séð á síðastliðnum vikum, en á meðal þeirra mynda er Surrogates með Bruce Willis, drepleiðinlega myndin The Informant með Matt Damon og yfirnáttúrulegi spennutryllirinn A Sound of Thunder, svo þetta er ekkert rosalega mikið hrós fyrir greyið Smokin' Aces 2.

Uppáhalds persónan mín í myndinni er Lazlo Soot, sem Tommy Flanagan leikur, en hann er eina persónan sem var líka í Smokin' Aces 1. Hann leikur psychopath leigumorðingja með mikla "dulbúninga" hæfileika, en hann skemmtir sér við að búa til eftirmyndir af andlitum fólks sem hann drepur og ganga um með grímurnar þeirra. Þannig dulbýst hann sem lögregluþjónn og kemst inn í varnir FBI mannana.

Góður tímapunktur í myndinni var þegar Vinnie Jones er fallinn fyrir gellunni í myndinni, Martha Higareda. Þau eiga að vera að keppa um sama skotmark og sama pening en þegar hún er skotin í bringuna dregur hann hana afsíðis og kyssir hana ástríðufullum kossi - svo náttúrulega verður hann að hefna hennar og hleypur út í hasarslaginn sem bíður hans fullur reiði og ástríðu.

Munurinn á Smokin' Aces 1 og 2 er annar leikstjóri, aðrir leikarar og allt annar metnaður lagður í myndina. Minni metnaður. T.d. flottu effectin og skotin sem einkenndu mynd nr. 1 skortir algjörlega í númer 2.

Það besta við myndina, fyrir utan dvergana í fallbyssunni, var samt sem áður endirinn. Ég veit ekki hvort þú sért búinn að sjá hana, eða hvort þú viljir/munir gera það yfir höfuð. En þegar Lögreglumaðurinn kemst að því að Walter Weed, sem er verið að passa uppá er í rauninni vondi kallinn og að hann hafi í rauninni lokkað alla þessa geðhrærðu morðingja á staðinn, er Weed horfinn. Við horfum á Weed labba í burtu og setjast uppí bíl (hann hafði verið í hjólastól alla myndina til að villa fyrir lögguni .. dum dum duuum) heldur maður að þetta sé fyrsta myndin í sögunni þar sem vondi kallinn vinnur, (eða vondi og ekki vondi.. hann sá til þess að hellingur af psychopath raðmorðingjum og pynturum drápu hvern annan...) en svo var ekki. Góða löggan birtist á síðustu 3 sekúndum og skýtur Weed í hausinn. Þessi óvænta og skyndilega upplausn bjargaði annars einkar lélegri mynd.

Ég gef henni 2,5 af 5 stjörnum :)