Saturday, April 10, 2010

Waterworld [1995]

-Beyond the horizon lies a new beginning-

  • Leikstjórn: Kevin Reynolds
  • Lengd: 135 mín.
  • Leikarar:
  • Kevin Costner – The Mariner
  • Jeanne Tripplehorn – Helen
  • Tina Majorino – Enola
  • Dennis Hopper – Deacon (The Duke of the Deez)

Tíminn er 22:45 á miðvikudegi í páskafríinu. Staðurinn er Hagkaup í Garðabæ. Opið allan sólahringinn!

Vegna þess hvað ég er komin með ógeð á öllum myndum á vídjóleigum lá leið mín í 999 kr bíómyndahorn Hagkaups að freista gæfunnar. Eftir þriggja mínútna vafr um hinar ýmsu misgóðu myndir, festist augnarráð mitt á einni. Þetta var engin venjuleg 999 kr. mynd. Þetta var gullmoli. Mér leið eins og ég hafi bókstaflega fundið pening þarna í ljótu gráu hillunum í Hagkaup. Í eins konar vímu þar sem ég gat ekki hætt að brosa borgaði ég fyrir poppið mitt, kókið... jú, og Waterworld.

Þegar ég var 10 ára gömul fékk ég Waterworld lánaða hjá vinkonu minni á VHS. Hún hafði horft á hana það oft að spólan var eydd og „rispuð“, ef maður má segja það um VHS spólu. Þessi vinkona mín trúði því einfaldlega ekki að ég hefði aldrei séð þessa mynd – og skiljanlega, því Waterworld er meistaraverk.

Aðdáun mín á þessari mynd gerir það að verkum að síðustu vikuna er ég búin að segja flest öllum vinum mínum frá þessum stórkostlega fundi mínum – og oftar en ekki eru þeir dolfallnir af öfundsýki.

Waterworld þurfti að sæta frekar harða gagnrýni áður en hún var gefin út. Kevin Kosner virðist ekki hafa verið vinsæll á þessum tíma og margir hraunuðu bókstaflega yfir myndina án þess að hafa einusinni séð hana.

Nokkur hundruð árum fram í tímann, þegar gróðurhúsaáhrifin hafa brætt alla jökla og hækkað sjávarmálið upp yfir öll lönd, er eini kostur mannkynsins að lifa á bátum og prömmum. Matur, vatn og vörur eru til í litlum mæli og mold er það dýrmætasta sem mennirnir eiga.

Á meðan menn búa annað hvort einir á bátunum sínum (kallaðir drifters) eða saman í litlum samfélögum í fljótandi virkjum (Atolls) er eina markmið lífsins að stunda viðskipti til að fá mat og vatn, til að lifa af. Í svona bágbornu samfélagi eru náttúrulega einhverjir sem misnota sér aðstöðu fólksins til illverka. „Smokers“, hópur skítugra óþrjóta á jet-skium, bátum og sjóflugvélum eru vondu kallarnir í myndinni sem ráðast á þessi samfélög, drepa og stela. Þeir draga nafn sitt bæði frá reyknum sem kemur úr vélknúnu faratækjunum þeirra og það að þeir reykja eins og strompar.

Þegar fréttist að merkingar á baki lítillar stelpu, Enola (Tina Majorino) séu leiðarvísir til Dryland – andstæðu Waterworld, vilja óþrjótarnir stela henni.

Aðalsöguhetjan, the Mariner (Kevin Cosner) er einfari með smávægilegar stökkbreytingar í átt að fisk, sem gerir honum kleift að synda niður að hafsbotni og finna ýmsan munað, mold og fleira. Hann rekur í átt að litlu fljótandi samfélagi og ætlar að stunda viðskipti við þau – en þegar þau komast að því að hann sé öðruvísi, með tálkn og fit, læsa þeir hann inni og ætla að taka hann af lífi. Þá birtast þrjótarnir og hyggjast stela litlu stelpunni með kortið á bakinu. Með því að bjarga lífi Marinersins komast Enola og forráðamaðurinn hennar, Helena (Jeanne Tripplehorn) undan.

Næstu 90 mínútur myndarinnar sýna samskipti Mariners við stúlkurnar tvær, sem teljast varla góð og barátta þeirra þriggja við „The Smokers“, sem virðast alltaf vera á hælum þeirra.

Nokkur atriði fara í taugarnar á manni við að horfa á þessa mynd.

  • Menn eiga vatnssíur, en af einhverjum ástæðum virkar það ekki við að hreinsa sjó, sem er nú ekki í útrýmingahættu.
  • Annað atriði er matarskorturinn, maður myndi halda að nægur fiskur væri í þessu óendanlega vatni, en það er greinilega ekki auðvelt fyrir þetta fólk, sem búið hefur í og á vatni allt sitt líf, að veiða.
  • The Smokers eiga nánast endalausar byrgðir af sígarettum, þegar tóbak hefur ekki verið ræktað í nokkur hundruð ár.
  • Ótrúlegt er líka að þeir hafa haft nógu mikla olíu til að endast þeim nokkur hundruð ár, auk þess sem vélarnar þeirra (vélbátarnir, jet-skiin og flugvélarnar) gætu væntanlega ekki enst svona lengi. En svo er, jú, olían þeirra að klárast í enda myndarinnar – áður en Kevin Costner sprengir olíuskipið þeirra í loft upp.
  • Persónulega finnst mér nokkur hundruð ár frekar stuttur tími fyrir stökkbreytingar á borð við tálkn.

Söguþráðurinní þessari mynd er ekkert verri en aðrir. Lífsbarátta mannsins, ástir og ádeilur milli fólks eru allt frekar týpísk efni í kvikmynd, og samtvinningur þeirra búa til eitt stykki góða kvikmynd. Margir tala um söguþráðinn sem langsóttann, en hann er ekkert langsóttari en til dæmis Pirates of the Caribbean, sem er elskuð af öllum bara því Johnny Depp er í henni.

Leikurinn er ágætur – versti leikurinn finnst mér hennar Tinu (Enola), en það er ekki hægt að ætlast of mikið af 10 ára barni. Sjaldan hef ég samt séð fallegra barn.
Það eru skiptar skoðanir um hvernig Kevin Costner stóð sig og ég hef séð nokkrar umfjallanir um að persónan hans sé of reið og einangruð. Ég spyr bara; hvernig værir þú ef þú værir stökkbreytt frík sem byggir eitt úti á sjó? ha?
Persónan hans mýkist svo þegar líður á myndina og hann er orðinn frekar væminn og sætur í endann.
Jeanne Tripplehorn leikur ágætlega líka, en helsti kosturinn hennar er hvað hún er sláandi falleg.
Það sama má segja um Dennis Hopper sem leikur trúverðugt illmenni. (um hversu vel hann leikur, ekki hve sláandi fallegur hann er). Ekki sakar þegar hann hefur misst augað og er með lepp það sem eftir er af myndinni

Búningarnir eru líka mjög góðir. Frekar trúverðugir tötrar og vel gerðir.

Það er til 175 mín. útgáfa af myndinni (venjulega myndin er 135 mín.) og ég væri til í að sjá hana. Ég hef lesið að í lengri útgáfunni fái maður aðeins betri sýn inn í söguna og svörum við mörgum algengum spurningum úr söguþræðinum er svarað.

Ég held að höfundar myndarinnar fái þær tilfinningar úr áhorfendum sem þeir vilja. Þrátt fyrir skaphita og dónaskap Costners er samúðin samt sem áður með honum. Maður vorkennir honum svolítið vegna þess hve öðruvísi hann er og útskúfaður úr samfélaginu. Það er líka skemmtilega sætt hve ákveðin Enola er og hvað hún er með stóran persónuleika.

Þegar ég athugaði hvað Tina Majorino (1985) væri að gera í dag fann ég enga mynd sem ég kannaðist við, nema Napoleon Dynamite (hún leikur Deb). Hún breyttist nú ekkert mikið á þessum 9 árum sem liðu á milli þessara persóna, en leikur mjög skemmtilega persónu þar lika. Hún hefur þó leikið í nokkrum þáttum, eins og Veronica Mars og núna leikur hún í þáttunum Big Love, með Jeanne Tripplehorn!

Gaman er að vita að við lok upptöku á myndinni labbaði Kevin Reynolds út og Kevin Costner þurfti að klára að taka myndina upp.

Þegar Waterworld kom út árið 1995 hafði verið mjög slæm umfjöllun um hana og dómar, meira að segja áður en hún kom út. Fólk vildi ekki að athygli væri beint að gróðurhúsaáhrifum og alheimshlýnun, og með fólk þá meina ég Bandaríkjamenn. Auk þess er Kevin Costner ekki elskaður af öllum. Sjálf finnst mér þetta frekar fordómafullt af fólki að dæma þessa mynd svona hart fyrirfram þar sem hún er í rauninni mjög góð. En þá vita þau bara ekki af hverju þau missa!
Þrátt fyrir þessa slæmu dóma um þessa ófrumsýndu mynd græddi hún 80 milljónir dollara í bíóhúsum, og þá á eftir að taka með í reikninginn sjónvarpssýningar, VHS, DVD, Blu-ray og fleira.

Ég veit ekki hvað ég á að segja annað en að ég held mikið upp á þessa mynd. Mér finnst hún skemmtileg og „öðruvísi“ en hin týpíska mynd. Með því að pæla aðeins í umhverfinu sér maður hve erfitt það hefur verið að taka þessa mynd upp.

(Hún er tekin upp í og við Californiu og Hawaii)

Lokauppgjörið er líka ágætt. Þau ferðast um í loftbelg þar til þau finna það sem ætti að vera Mt. Everest (kemur betur fram í lengri útgáfu myndarinnar). Þó finnst mér asnalegt að Kevin Costner ákveði að vera ekki eftir á eyjunni. Hann fer aftur í að eiga sér einmannalegt líf með sjálfum sér úti á sjó. Þó svo að hann sé með tálkn og samvaxnar tær þá væri samt mun auðveldara fyrir hann að búa á landi! Sérstaklega þegar hann er nýlega orðin ástfanginn af einni fallegustu konu heimsins! Þetta er samt hans val og ég verð að virða það.

Að lokum verð ég bara að segja að ég er stolt af 999 kr. kaupunum mínum.

Hádramatíski trailerinn.

Mér heyrist þetta vera Mufasa sem er að tala inn á hann - en ég er þó ekki alveg viss

Skemmtileg VHS auglýsing


1 comment:

  1. Vá, það er orðið mjög langt síðan ég sá þessa. Mig minnir nú að mér hafi ekki þótt hún neitt meistaraverk, en samt ekki nærri því eins slöpp og umfjöllunin gaf til kynna.

    Samt skrýtið hvað það myndast neikvæð umfjöllun um sumar myndir. Til dæmis það eina sem fólk vissi um þessa þegar neikvæða umfjöllunin fór af stað var að hún var mjög dýr (með dýrari myndum sögunnar á þeim tíma) og að það hefði ýmislegt misfarist við gerð myndarinnar (það var víst óveður sem eyðilagði allar sviðsmyndirnar, svo það þurfti að smíða þær allar aftur), og loks að leikstjórinn hefði hætt (sem er reyndar sjaldnast góðs viti, en hann lét a.m.k. ekki fjarlægja nafn sitt af myndinni).

    Aðrar myndir hafa lent í hrakföllum og kostað mikinn pening án þess að neikvæð umræða hafi myndast um það. Sumar myndir hafa meira að segja verið auglýstar út á það að vera dýrar í framleiðslu. Kannski voru framleiðendur Waterworld bara með lélegt PR.

    Mjög góð og vegleg færsla. 10 stig.

    ReplyDelete