Monday, September 21, 2009

RIFF 2 - Bandaged

Ég hafði lesið mig aðeins til um þessa mynd áður en ég sá hana og vissi að stelpan myndi fyrirfara sér, en ég bjóst við að hún myndi reyna betur en það að skvetta einhvers konar sýru framan í sig bara á helminginn af andlitinu. Ef hún hefði virkilega verið að reyna þá hefði betri leið verið að drekka einfaldlega úr flöskunni. Þá vafðist fyrir mér af hverju í ósköpunum stelpan þyrfti að liggja hreyfingarlaus í margar vikur (eða það virtist líða það langur tími af mínu lífi á meðan á myndinni stóð) þegar hún var, jú, bara með brunasár í andlitinu. Það er kannski minna mál heldur en hræðilegu erótísku senurnar sem virtust standa í marga tíma einar og sér.

Soft-porn atriðin hjá þjóðverjunum með hræðilegu hreimana var langdreginn og grunnhyggin, allavegana fyrir manneskju af því kyni sem hefur ekkert danglandi milli lappana. Hver kyssist annars með því að sleikja tennurnar á makanum? Ekki ég. Ég bjóst einhvern vegin við því að karlmenn höfðu borið ábyrgð á þessari mynd og var frekar hissa þegar ég komst að því að bæði höfundurinn og leikstjórinn eru konur. Ég vissi ekki að konur hefðu svona gífurlegan áhuga á brjóstum, en svo komst ég að því að leikstjórinn er S&M framleiðandi. Það útskýrir margt.

Ég skildi ekki alveg málið með pabbann og nýstárlegu kenningar hans til ad græða stelpuna, eða bara af hverju hún mátti ekki fara út úr húsi en það hefði mátt vera skýrara. Auk þess að mér þótti hallærislegt að leikararnir skyldu tala bjagaða ensku í stað þýsku, þýskt tal með enskum texta hefði örugglega komið betur úr. Til að gera langa sögu stutta þá fannst mér ég ekki vera betri né upplýstari manneskja eftir þessa mynd.


Lessuklám er ekki fyrir alla.

RIFF 1 - American Astronaut

Orðin "vísindaskálsögulegur geimvestri og söngleikur" var nóg fyrir mig til að vilja ekkert heitar en að sjá þessa mynd. Ég fer sjaldan með miklar væntingar í bíó en þegar ég labbaði inn í salinn var ég hrædd um að myndin væri algjört flopp og myndi ekki vera jafn góð og ég vonaðist til. Það voru um það bil 4 mínútur byrjaðar af myndinni og eitt flott atriði einfaldlega af manni hoppandi í geimgalla þegar ég emjaði af hlátri og taldi þetta vera besta vísindaskáldsögulega geimvestra söngleikinn sem ég hafði séð.
Kannski á "simple mind, simple pleasures" vel við mig, (ég tel það líklegt) en þegar tveir menn syngjandi og dansandi inni á baði á geim-bar fær fullan sal af fólki til að hlæja, þá hlýtur þetta að vera góð mynd. Súrir kaflar koma inn á milli, og í rauninni er öll svolítið súr, en hún heldur athygli manns frá upphafi til enda, og ég hætti allavegana ekki að brosa alla myndina.

Plottið um að aðalpersónan þarf að fara með konu í kassa til Júpíter, sækja strákin sem hafði séð kvenmannsbrjóstin, fara með hann til Venusar og skipta honum út fyrir lík fyrrverandi konungs þeirrar plánetu til að verða ríkur hljómar kannski ekki spennandi á blaði, en leikstjórinn, handritshöfundurinn og aðalleikarinn (allt sama manneskjan) er snillingur, hann gæti tekið einföldustu senu og snúa uppá hana og á hvolf og út kæmi listaverk.

Það má bæta því inn í um leikstjórann, Cory McAbby, að hljómsveitin hans sér líka um tónlistina. En tónlistin er eitt helsta atriðið sem gerir þessa mynd svona yndislega. Dans og söngatriðin gerðu myndina óneitanlega að því sem hún er. Satt best að segja þá er þetta ein skemmtilegasta mynd sem ég hef séð.
Mynd sem fær mig til að brosa allan hringinn í nokkra klukkutíma eftir að ég labba út af henni fær allavegana topp einkunn hjá mér.

Topp myndirnar..

Ég er ekkert mikið bíómyndafanatic.. Ég heillast bara að myndum sem heilla mig, oftar en ekki eru það sappy rómantískir söngleikir og það verður bara að hafa það.

Across the Universe
Ég hef veikleika fyrir Bítlunum, söngleikjum og óstöðvandi-ástarsögur. Allt einkennir þetta eina bestu mynd allra tíma! Tónlistin er alveg hreint mögnuð - aldrei hefði ég getað ímyndað mér að hlusta á endurgerðir af Bítlalögum, en eftir að hafa séð þessa mynd hlusta ég frekar á soundtrackið heldur en meistarana sjálfa. Hún er hröð, spennandi, yndisleg og sæt. Það skiptir ekki máli hvað ég horfi á hana oft, ég elska hana bara meira og meira í hvert skipti. Það er reyndar eitt sýruatriði sem ég hef lært að þola, en spóla oftast yfir það ef ég nenni.. Öll ástin bætir samt upp fyrir það, og ekki skemmir það að Jim Sturgess er einn mest aðlaðandi maður allra tíma.

American History X
Með 3 eldri systur og endalaust af VHS myndum var mér kennt að ef ég elskaði ekki Sean Connery og Edward Norton væri ég ekki neins virði. Kannski er þetta heilaþvottur, kannski ekki, en þetta er svo vel leikin mynd að ég get ekki annað en haldið upp á hana. Svo er þetta bara áhugaverð saga og gott handrit.





Benjamin Button
Ég er bara nýbúin að sjá hana, og bara einusinni annað en flestar á listanum. En hún einhvernvegin snertir mann. Hún er vel gerð, sæt og áhugaverð, og ég sakk svo djúpt inní myndina að ég pældi ekki einusinni í fáranlegu hugmyndinni að maðurinn væri að eldast afturá bak. Full af yndislegum persónum og lífsreynslum. Ég er venjulega ekki aðdáandi Brad Pitt, en hann lék þetta vel.

Die Hard 1,2 og 3

Það er ekkert mikið hægt að segja en það að þetta eru bestu hasarmyndir sem hafa verið gefnar út. Ég var látin horfa á Bruce Willis berjast við óþokka frá því að ég var þriggja ára gömul. Myndirnar eru rúmlega 20 ára gamlar og ég horfi samt á þær minnst tvisvar á ári. Brúsi gerir þær ódauðlegar og þýsku vondu kallarnir með hreimina eru bara ástæða ein og sér til að elska þær. Uppáhalds hlutinn minn er samt alltaf að horfa á wife-beaterinn verða skítugari og skítugari með hverri mínútu, þar til á endanum er hann samblanda af blóði og drullu.



Lion King
Ég fór á hana í bíó fjögurra ára gömul og varð ástfangin. Eftir að pabbi minn keypti hana í bandaríkjunum horfði ég á hana einu sinni á dag í allaveganna ár. Kunni hvert einasta orð utan að og söng fullkomlega með öllum lögunum. Ég held að það hafi ekkert hrjáð mig að ég kunni ekki stakt orð í ensku. Ég þurfti ekkert að vita hvað þau voru að segja.



The Prestige
Hugh Jackman og Christian Bale í sömu myndinni er alveg nógu góð ástæða til að halda uppá þessa mynd, en hún er svo vel leikin og útfærð að ég fell næstum því fyrir plottinu í hvert skipti sem ég horfi á hana. Veit ekkert hvað annað er hægt að segja. Ég heillaðist bara að öllu í henni.











Svo ætla ég bara að nefna 4 í viðbót sem þarf ekkert að útskýra
Love Actually
Moulin Rouge
Turner and Hooch
Walk the Line