Wednesday, December 2, 2009

Paranormal Activity

Ég fór á Paranormal Activity (2007) fyrir nokkrum vikum, í kolniðamyrkri kl 22:30. Ekki alveg besta hugmynd sem ég hef átt. - Vona að þú sért búinn að sjá hana svo ég eyðilegg ekki fyrir þér!

Paranormal Activity er hryllingsmynd á heimildamyndaformi, á sama plani og Blair Witch Project. Kærustuparið Katie og Micha eru flutt saman inn í 2. hæða smáhús í San Diego. Þar verður Katie vör við yfirnáttúrulega hluti eins og andardrátt og tilfinningu um viðveru náttúrulegs fyrirbæris. Micha ákveður að kaupa myndavél til að taka upp hvað gerist á nóttuni. Fátt gerist í byrjun og þau tala við miðil sem vísar þau á sérfræðing um illa anda. Fleira fer svo að gerast á þessum upptökum á nóttuni eins og skuggar að birtast, hurðir að hreyfast o.fl., sérstaklega eftir að Micha dregur fram andaglas-borð. Eftir nokkrar nætur fer Katie að standa upp í svefni og horfa á kærastann klukkutímum saman, hún fer líka út að róla sér án þess að muna eftir því daginn eftir. Spennan byggist hægt og rólega þangað til í hrottalegu síðustu mínútunum. Lokaatriðið fékk mig til að öskra, ásamt hálfum bíósalnum, en það hefur ekki gerst lengi.


Þetta er frumraun leikstjórans, handritshöfundarins, klipparans og sviðstjórans Oren Peli og verð ég að segja að honum tekst frábærlega að gera þennan yfirnáttúrulega spennitrylli raunverulegan. Það komu aðeins 5 manns við gerð Paranormal Activity (auk 5 annara aukaleikara sem ekki sáust í myndinni sem var sýnd í bíó). Það eru Oren Peli, Katie Featherston - Katie, Micha Sloat - Micha, Mark Fredrichs - miðill og Amber Armstrong sem leikur vinkonu parsins, Amber. Það gerði myndina hvað raunverulegasta fyrir mér með því að skýra karektarana ekki upp á nýtt. Að fara á wikipedia eftir myndina og sjá að þetta væru raunveruleg nöfn þeirra ílengdi hræðslutilfinninguna.
Oren Peli er búinn að vera dauðhræddur við drauga allt sitt líf, hann var meira að segja hræddur við Ghostbusters, en hann vildi binda þessa hræðslu í eitthvað gott og fá afköst út á hana. Meginmarkmið hans var að gera myndina trúlega og byggja upp spennu og hræðslu smám saman, frekar en að vera með ýktar hræðslusenur. Ég verð að viðurkenna að honum tókst þetta fullkomlega. Engin tónlist er í henni og nætursenurnar teknar upp með venjulegri næturstillingu á myndavélinni, allt hjálpar þetta til við að halda "illusioninu". (Afsakaðu enskusletturnar). Myndin nær að halda hræðslu fólks því allt þetta yfirnáttúrulega gerist í myrkri og í skjóli næturs þegar fólk er sofandi. Þó að sumir þori ekki að viðurkenna það þá eru allir pínku lítið hræddir við myrkrið.

Myndin er öll tekin upp á "handheld" myndavél sem ýkir raunverurleikann enn frekar. Nokkrum sinnum er Micha að taka upp inni á baði þar sem eru 3 speglar og sést að það er ekki möguleiki á að nokkur annar sé að taka þetta upp nema hann. Það er ein af ástæðunum fyrir því að ég þurfti að sannfæra sjálfa mig stöðugt um að þetta væri ekki sannsögulegt. Önnur ástæða, ótrúlegt en satt, var leikurinn. Mér fannst þetta mjög vel leikin mynd og það var greinilegt að leikararnir (allir tveir!) voru að lifa sig algjörlega inn í persónurnar sínar.

Ég vissi ekkert um myndina þegar ég fór á hana og held að það hafi gert hana mun skemmtilegri. "The element of surprise" er alveg stór þáttur, sérstaklega í hryllingsmyndum.
Eins og ég sagði þá fór ég strax heim á wikipedia eftir myndina og komst þá að mörgu sem kom mér á óvart. Oren Peli hafði til dæmis bara 15.000$ fjármagn og myndavélina á þrífæti til að gera myndina, en það að hann kom að allri vinnslu sjálfur og þurfti auðvitað ekki tökulið hefur hjálpað helling. Myndin var öll tekin upp í húsinu hans í San Diego, sem hann hafði eytt ári í að breyta og byggja og kaupa ný húsgögn í. Hann byggði stiga, setti inn teppi og keypti sér stærsta sjónvarpið sem til var.
Annað sem gerði myndina trúlega var að þessir leikarar voru algjörlega óþekktir. Katie hafði leikið í mynd sem heitir Mutation frá árinu 2006. Mynd sem ég ætla aldrei nokkurn tíman að sjá.

"Terror has just mutated"
Micha hafði aldrei leikið í sjónvarpi né bíómyndum áður. Persónur þeirra voru líka eðlilegar og áttu venjulegar samræður, en Oren var ekki með neitt handrit, heldur fengu leikararnir bara útlínur að því hvað þau áttu að segja.

Paranormal Activity var fyrst gefin út árið 2007 með öðrum endi, en alls eru til þrír mismunandi endar af myndinni. Sjálf held ég að endirinn sem var sýndur í bíó hljómi bestur, en ég hef ekki séð hina tvo. Myndin varð fyrir nokkrum töfum og sem sjálfstæð mynd var hún ekki auglýst eins og Hollywood myndir og smá vesen að koma henni á legg en hún var sýnd á nokkrum kvikmyndahátíðum og háskólagörðum á seinustu 2 árum. Hún var síðan heimsfrumsýnd 25. september 2009. Hún er núna gróðamesta sjálfstæða mynd í sögunni og var búin að græða 107 milljónir dollara 25. nóvember.

Að mínu mati er þetta betri hryllingsmynd en flestar þær með endalausu bregðiatriðum og milljónum í fjármagn en ég er ánægð að hugsjónir og draumar þessa snillings hafi getað komist til skila, sama hvað það kostaði.
Hún er með 7.1 í einkunn á IMDb (ég veit að það er ekki að marka) en ég myndi gefa henni 4-4.5 stjörnur af 5. Ég dreg smá af henni því mér finnst aðalleikkonan pirrandi.


Ég er enn þá hrædd við trailerinn á myndinni - þrátt fyrir að hafa séð hana og lesið allt um gerð hennar.

1 comment:

  1. Mjög góð færsla. Ég er reyndar ekki búinn að sjá hana ennþá, en ég er búinn að lesa nóg um hana til þess að þessi færsla eyðilagði ekki neitt.

    9 stig.

    ReplyDelete