Wednesday, December 2, 2009

Some Like It Hot



Some like it hot er gamanmynd í rómantískari kantinum, frá 1959.

Billy Wilder (1906-2002) sér um leikstjórn og handritaskrif og stendur sig prýðilega - eins og að vana. Þetta er alls ekki fyrsta myndin sem hann kemur að, en hann hafði samið handrit að minnst 50 myndum og leikstýrt 16 öðrum, áður en hann tók að sér Some Like It Hot. Some like it hot er tiltölulega týpisk mynd fyrir Wilder en flestar myndir hans eru einmitt gamanmyndir með huldum skilaboðum og smá rómantík bætt út í. Hún er líka týpisk fyrir hann á þann hátt að það eru fáar dramatískar tökur, varla neitt zoom, ekkert dutch tilt og aldrei reynt að koma tilfinningum fyrir hjá áhörfendum, enda sagði Billy Wilder að hann vildi ekki þannig tökur. Hann vildi að sagan segði sig sjálf. Þetta hugarfar virkar vel hjá honum en það sleppur kannski því allar myndirnar hans eru léttar. Ein uppáhalds setningin mín frá Wilder er samt, "Take a few shots out of focus, I want to win a foreign film award." Hann var alveg gífurlega hæfileikaríkur og eyddi allri sinni ævi í að skrifa, framleiða og leikstýra myndum og er einn af uppáhalds leikstjórunum mínum. Kannski bara uppáhalds því hann er svo miklu krúttlegri en allir hinir.


Fögru stöllurnar Josephine og Daphne

Some Like It Hot gerist í Chicago, þar sem vinirnir Joe og Jerry verða vitni að St. Valentines fjöldamorðinu og reyna þeir að finna leið til að flýja borgina undan mafíunni. Sagan tekur óvæntan sveig þegar eina leiðin til að flýja er með kvennhljómsveit sem er á leið til Miami. Þeir klæða sig í kvennaföt og ganga í lið með hljómsveitinni. Joe verður Josefine og Jerry verður að hinni álíka ófríðu Daphne. Þeir komast þó ekki hjá öllum vandræðum þar sem Jerry verður ástfanginn af Sugar Kane (Marilyn Monroe) og Joe þarf að þola hinn óþreytandi biðil Osgood.

Mér fannst Some Like It Hot einfaldlega góð, ein af betri myndum Wilder og virkilega fyndin miðað við aldur. Leikararnir eru náttúrulega stórkostlegir fyrir utan nokkra kvilla í leik hjá Marilyn Monroe, en hún og leikstjórinn voru langt frá því að vera mestu mátar. Ég held nú að Svanhvít hafi komið að þessu í hennar bloggi, en hún var hræðilega léleg í að muna línurnar sínar. Þegar Monroe átti að opna skúffu og segja "Where's the bourbon?" gat hún ómögulega munað línuna, sama hversu oft þau tóku upp. Wilder límdi textann í skúffuna, en þá opnaði hún bara vitlausa skúffu. Á endanum var hann búinn að koma textanum fyrir í öllum skúffunum. Samt þegar þú horfir á þetta er leikurinn alveg jafn trúlegur og ef þetta væri að gerast í alvöru. Jack Lemmon var uppáhalds leikarinn hans Wilder til að vinna með enda einn besti leikari Bandaríkjamanna fyrr og síðar. Það er skemmtilegt hvað karakterinn hans er "oblivious" um það að hann sé í rauninni karlmaður og dettur svolítið inn í gírinn þegar hann trúlofast Osgood (Joe. E. Brown). Ein góð setning er : Curtis: "You're not a girl! You're a guy! Why would a guy want to marry a guy?" Lemmon: "Security!"
Önnur er þegar Lemmon er búinn að tilkynna Curtis að þeir Osgood séu trúlofaðir : Curtis: "What are you going to do on your honeymoon?" Lemmon: "He wants to go to the Riviera, but I kinda lean toward Niagara Falls."
Það besta við myndina er samt lokaatriðið, þegar Lemmon segir biðlinum sínum ótal galla sem hann síðan sýnir að honum sé slétt sama um. Svo þegar hann tjáir sig um að hann sé karlmaður segir Osgood: "Well, nobody's perfect!" Frábær leið til að enda þessa mynd.



Myndin er skemmtileg, fyndin og hógvær í alla staði sem hún þurfti að vera. Ekki var of mikið af tónlist né dramatík í skotum og handriti, sem eins og áður hefur komið fram, er einkennandi fyrir myndir Wilder.
Þetta er fyrsta mynd með klæðskiptingum sem hefur verið gerð og þegar Wilder var spurður út í af hverju hann gerði mynd um karla sem klæddust eins og konur sagði hann: "Women starting wearing the pants in Hollywood around that time, i just wanted to return the favor."
Some Like It Hot er ein besta "eldri" gamanmyndin sem ég hef séð og ég myndi mæla með þessari mynd við hvern sem er.

1 comment:

  1. Fín færsla. 7 stig.

    Wilder notaðist reyndar við flottari skot fyrr á ferlinum, á 5. áratugnum. Fyrsta skotið í Lost Weekend er mjög flott (og Hitchcock fékk það að hluta til lánað í Psycho). Og Sunset Blvd. býr yfir fullt af flottum skotum, ef mig misminnir ekki. En rétt er það, að frá þeim tíma einkennist myndatakan í myndunum hans af ákveðinni naumhyggju...

    ReplyDelete