Wednesday, January 27, 2010

Up in the air

Up in the Air

Ég vissi ekki hvaða mynd ég væri að fara á fyrr en í bílnum á leiðinni á Álfabakka. Mér var þá sagt að ég væri að fara að sjá Up in the air með George Clooney. Ég vissi sum sé ekkert um myndina nema að George Clooney léki í henni, þegar ég settist inní sal og hafði þar af leiðandi enga skoðun. Ég veit ekki hvort ég hafi neina skoðun á myndinni núna heldur, en ég get vottað fyrir það, að George Clooney leikur í henni.

Ímyndaðu þér að þú sért komin/nn heim til þín fyrir miðnætti á laugardagskvöldi. Búin/nn að fara út að borða, í bíó eða KSS fund. Þú hlammast niður í sófann, kveikir á sjónvarpinu og teygir þig í nammipokkan sem þú keyptir þér í Hagkaup fyrr þann dag. Up in the air er nákvæmlega sú mynd sem væri verið að sýna á stöð 2 meðan þú kjamsar á bland-í-pokanum. Þetta er hin týpíska mynd til að sjá á sjónvarpsskjánum klukkan 23:30 á laugardagskvöldi. Við höfum öll átt nokkur svona misheppnuð helgarkvöld og við þekkjum þessa mynd. Hún er djúp, troðfull af tilfinningum (góðum og slæmum), upphefjandi en samt sem áður þunglynd, með svolitlum húmor og dass af kaldhæðni mulið á toppinn. En það sem einkennir 23:30 laugardagsmyndirnar er fyrst og fremst mannleg samskipti.

Up in the air fjallar um Ryan Bingham (Clooney) sem ferðast um Bandaríkin og segir fólki upp. Hann á enga vini, hann talar ekki við fjölskylduna sína og einu samskiptin sem hann hefur eru tilgerðalegu samtölin við afgreiðslufólkið og stuttu spjöllin við nýja kunningja. En þannig vill Ryan hafa það og hann myndi ekki breyta neinu við líf sitt - nema hann gæti ferðast meira. Markmið hans í lífinu er að safna 10.000.000 "flugmílum", sem aðeins 6 aðrir höfðu náð á ævinni og honum býður við öllu sem tengist samböndum eða tengslum. Rútína og reglusemi er það eina sem skiptir máli fyrir þennan mann sem nýtur þess svo mikið að ferðast (einn!) að hann þolir ekki þá 40 daga ársins sem hann er heima hjá sér. Fyrirtækið hans vill minnka ferðakostnaðinn og telur betra ef starfsmennirnir vinna í gegnum tölvuna, en Ryan fer með baráttuhug til að afsanna þá kenningu svo hann hætti nú ekki að ferðast svona.

Nú - eins og í öllum myndum verður að vera twist og tilbreyting, og þar sem þetta er laugardagskvöld kl 23:30 mynd verða að vera tár, tilfinningar og brostnar væntingar. Ekki örvænta! því Up in the air hefur allan pakkann. Bingham kynnist fallegri viðskiptakonu á einum flugvallabarnum og kemst að því að þetta er sama manneskja og hann, í kvennmannslíkama. Þau höfðu t.d. bæði furðuleg erótísk tengsl við flugpúnta og fríðindi. ...heitt! Ég vil ekki kjafta mikið frá en auðvitað breytir þetta samband honum í nýjann mann sem er ekki útilokaður frá mannlegum samböndum og er tilbúinn til að bæta sig og lifa "eðlilegu" lífi, þegar traðkað er á draumum hans og væntingum.

"Ironically", þá gengur tölvuhugmyndin ekki upp, en samt sem áður stendur hann eftir einn og óhamingjusamur á flugvellinum í endann, með ekkert nema snyrtilega og reglulega pakkaða flugfreyjutösku.

Þetta var fín mynd. Góðir leikarar og vel skrifað handrit. Mér leiddist aldrei í myndinni og sé ekki eftir peningnum en ég held að ég hefði skipt um stöð, ef ég hefði rambað á þessa mynd kl 23:30 á laugardagskvöldi.